Ása María Scheving birtir magnaðar fyrir og eftir myndir sem sýna glögglega afleiðingar fíkniefnaneyslu. Í pistli sem er birtur á síðunni Það er von segir Ása María að það hafi verið dýrkeypt mistök þegar hún prófaði eiturlyf í fyrsta skiptið.
„Árið 2016 tók ég dýrkeyptustu ákvörðun lífs míns og prófaði eiturlyf, ákvörðun sem sneri lífi mínu ekki bara á hvolf heldur tók allt frá mér sem mér var kært þar til ekkert stóð eftir nema blessunarlega ég sjálf. Þegar ég prófaði fyrst í febrúar 2016 endaði það laugardagskvöld með sjálfsvígstilraun sem kom mér í öndunarvél í 10 daga, kallaður var til prestur sem undirbjó fjölskyldu mína fyrir kveðjustund en sem betur fer er Guð góður og ég braggaðist og vaknaði,“ segir Ása María.
Hún segist hafa orðið gífurlega undirförul meðan hún neytti fíkniefna. „Ég náði góðum bata, lofaði öllum og sjálfri mér að prófa aldrei aftur fíkniefni en eins og margir vita spyr þessi sjúkdómur ekki um loforð okkar og áður en ég vissi af prófaði ég aftur seint haustið 2016 og þá var ekki aftur snúið. Á síðustu 3 árum hef ég verið óheiðarleg við alla í kringum mig og fíkillinn Ása María var einhver manneskja sem ég skildi ekki, þekkti ekki og vil aldrei verða aftur, þó er þessi sjúkdómur svo undirförull að ég þarf að skoða hegðun mína allar stundir og gera allt sem í mínu valdi stendur til að ég fari ekki til baka því ef ég er ekki í bata týni ég mér aftur,“ segir Ása.
Nú hefur hún verið edrú í einn og hálfan mánuð og er hægt og rólega að koma lífi sínu á réttan kjöl. „Ég er búin að vera 6 vikur edrú – fór í meðferð og er loksins að endurheimta sjálfa mig og lífið mitt til baka, það er ekkert sem jafnast á við að geta verið til staðar fyrir fólkið mitt í stað þess að valda þeim áhyggjum og þau séu þjökuð af hugsunum um hvar ég sé og hvort þetta verði dagurinn sem þau fái símtal um að sjúkdómurinn hafi sigrað mig,“ segir Ása.
Að lokum biður hún alla fjölskyldu sína afsökunar. „Í dag er ég full af lífsvilja, von og bjartsýni á framtíðina og það er SVO gott að lifa – edrú. Fyrirgefðu mamma, fyrirgefið systkini mín og fyrirgefðu ég. Ég er komin til baka og lít ekki til baka, framtíðin er björt og bíður. Það er Von.“