Ummælin hafa farið eins og eldur í sinu um netheima og ekki batnaði það eftir að Guðlaugur frábað sér ásakanirnar. „Ráðherrann svaraði og kveðst hafa sagt “kynlíf” ekki “ríða” immitt. Það gerir þetta miklu betra. Fkn idiot!“ sagði María Lilja Þrastardóttir um málið en hún er þekkt fyrir baráttu og aktivisma í jafnréttismálum.
„Það er ekki kjarni málsins hvaða orð ráðherra notaði um það að stunda kynlíf. Merkingin er sú sama og umræða um annað er einungis til þess gerð að afvegaleiða hana,“ segir Alexandra í samtali við Fréttablaðið í kjölfarið af afsökunarbeiðni Guðlaugs. „Punkturinn er sá að hann átti ekkert að vera að tala um kynlíf yfir höfuð. Framsetning Guðlaugs var augljóslega smækkandi fyrir mig og gerð til að slá sjálfum sér á brjóst. Ráðherra sýnir gríðarlegt dómgreindarleysi.“
Ragna Sigurðardóttir, læknanemi & varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík, sagði þetta vera ömurlega framkomu gagnvart Alexöndru „og skiptir eiginlega ekki máli hvaða orð féllu nákvæmlega heldur samlíkingin sjálf og hvernig hún var notuð til að þagga niður í ungri konu sem var ósammála ráðherra.“ Hún var ekki eina Samfylkingarkonan sem gagnrýndi ummælin en Helga Björg, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, gerði það einnig. „Ég er svo orðlaus og reið að ég veit ekki hvar á að byrja, en þetta er akkúrat það sem við vorum að tala um í gær og við VERÐUM að breyta!“
Uppreisn, ungliðahreyfing Viðreisnar, gagnrýnir ummæli Guðlaugs harðlega og segir þetta vera sýndarmennskuna uppmálaða.
„Ráðherra smánar konur frekar en að rökræða við þær í eigin ráðuneyti. Er stuðningur við #HeForSheog #MeToo hreyfingarnar bara PR stunt hjá forystu flokksins. Við köllum eftir því að forysta Sjálfstæðisflokksins fordæmi þessi ummæli Guðlaugs Þórs. Það er óboðlegt að ráðherra hagi sér með þessum hætti.“
Fjöldi fólks hefur svarað tísti Alexöndru um málið en Ragnheiður nokkur segir að sér hafi orðið óglatt við það að lesa þetta. „Og ekki kenna sjálfri þér um að hafa ekki brugðist svona eða hinsegin við, fullkomlega eðlilegt að bara frjósa og vita ekkert hvað man á að segja (og jafnvel til þess gert??) Fyrir utan bara valdaójafnvægi og hvernig aðstæður voru.“