Í samtalinu við Fréttablaðið staðfestir Guðlaugur að hann hafi notað samlíkinguna sem háskólaneminn Alexandra greindi frá á Twitter síðu sinni í dag. „Hvernig litist þér nú á að ég færi að kenna þér að ríða en væri hreinn sveinn en hefði lesið mér hellings til um kynlíf,“ eru ummælin sem um ræðir.
„En svo er þetta líka birtingarmynd einhvers miklu stærra, sagði Alexandra um ummæli Guðlaugs. „Konur eru fyrst og fremst metnar út frá því að þær séu konur, hversu ríðanlegar þær séu, hversu sætar þér séu og það er á þessum stað sem við erum komin svo ótrúleg stutt í feminískri baráttu. Þetta var ekki bara sagt til að slá mig útaf laginu heldur til að smána. Það þarf vart að taka fram að hann hefði aldrei svarað KK nemenda með þessum hætti. Hann stóð sem ráðherra í sínu eigin ráðuneyti fyrir framan hóp af háskólanemum og valdaójafnvægið er svo gígantískt og hann lék sér að því.“
Sjá meira: Háskólanemi sakar Guðlaug Þór um að hafa sagt þetta
„Í hópnum spunnust umræður um ummæli mín í viðtali við blað stjórnmálafræðinema um að það styrkti stjórnmálafræðikennslu að kalla til sem gesti stjórnmálamenn sem hefðu reynslu. Í spjalli við nemanda greip ég til samlíkingar sem eftir á að hyggja var ekki viðeigandi,“ sagði Guðlaugur. Guðlaugur segir að þrátt fyrir að samlíkingin hafi ekki verið viðeigandi þá hafi notkun hennar ekki verið með því markmiði að ögra eða særa.
„Hún var á þá leið að stjórnmálafræði og reynsla af störfum á vettvangi stjórnmálanna væru á einhvern hátt sambærileg reynslu og bóknámi í kynfræðslu. Þessu var ekki beint að neinum í hópnum og hvorki sett fram til að ögra né særa heldur sagt í hálfkæringi – og alls ekki með slíku orðavali sem lýst hefur verið á samfélagsmiðlum. Bið ég hlutaðeigandi velvirðingar,“