Bresku neytendasamtökin Which? hafa birt niðurstöður könnunar um bestu borgirnar í Evrópu fyrir þá sem vilja komast í stutt frí. Könnunin var gerð meðal þúsunda Breta og er borg í Póllandi á toppnum þriðja árið í röð. Mail Online fjallar um þetta.
Borgin sem um ræðir er Kraká, önnur stærsta borg Póllands. Þessi sögulega borg er þekkt fyrir fegurð sína og er miðborgin til að mynda skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Það er fleira en fegurð borgarinnar sem trekkir að því verðlag er með besta móti, en auk þess er mikið úrval veitingastaða og verslana í borginni. Þá skemmir væntanlega ekki fyrir að það tekur ekki mjög langan tíma að ferðast þangað, eða tvær og hálfa klukkustund með flugi frá London.
Kraká fékk einkunnina 93% af 100% mögulegum í könnun Which? sem var gerð meðal rúmlega 4.700 ferðalanga. Í næstu sætum á eftir voru spænsku borgirnar Sevilla (90%) og Valencia (89%). Þar á eftir komu Berlín (88%), Amsterdam (86%), Búdapest (86%), Munchen (86%) Feneyjar (86%) og Verona (86%).
Þess má geta að Reykjavík skorar ekki ýkja hátt á listanum, er í 40. sæti með einkunnina 75%. Reykjavík er þó fyrir ofan Brussel, Mílanó og Alicante sem er í neðsta sæti.
Nokkur atriði voru lögð til grundvallar útreikningunum; til að mynda verð á flugi, verð og gæði gistingar, verð á mat og drykk, menningarstaðir og afþreying fyrir ferðamenn, verslanir og samgöngur svo dæmi séu tekin. Reykjavík fær aðeins eina stjörnu fyrir verslanir og aðeins eina stjörnu í flokki sem tekur til þess sem ferðalangar fá fyrir peninginn á viðkomandi áfangastað.