„Við teljum að Þorsteinn Halldórsson barnaníðingur hafi byrjað að tæla drenginn okkar með gjöfum, fíkniefnum og peningum þegar hann var fimmtán ára gamall. Hann níddist á honum og sat fyrir honum stanslaust næstu þrjú árin og í stóran hluta þess tíma sagðist lögregla lítið sem ekkert geta gert. Þorsteinn gat nánast óáreittur níðst á barninu okkar.“
Þetta sögðu foreldrar þolanda sem lýstu áralangri baráttu fyrir velferð og öryggi sonar síns í Fréttablaðinu í dag. Í maí árið 2018 var Þorsteinn dæmdur fyrir að hafa ítrekað tælt son þeirra til sín með fíkniefnum, lyfjum og gjöfum. Brot Þorsteins gegn piltinum hófust þegar sá var fimmtán ára. Þorsteinn gaf piltinum peninga, tóbak og farsíma og nýtti sér yfirburði sína gagnvart honum til að hafa við sig samræði og önnur kynferðismök. Þá tók hann klámmyndir af piltinum og geymt í læstri möppu í farsíma sínum. Þorsteinn hefur verið ákærður aftur nýlega fyrir svipaða háttsemi gagnvart öðru barni.
Í viðtalinu við foreldra drengsins í Fréttablaðinu er farið yfir sögu sonar þeirra og Þorsteins. Þar kemur meðal annars fram að foreldrar stráksins máttu ekki kæra Þorstein fyrir brotin þrátt fyrir að kominn hafi verið rökstuddur grunur um að brotin hefðu átt sér stað. Ástæðan fyrir þessu var að sonur þeirra var orðinn 15 ára gamall, hann varð því að kæra sjálfur.
Það tók sinn tíma en á endanum var Þorsteinn kærður og dæmdur brotlegur gegn syni þeirra. Hann var dæmdur til að greiða honum um það bil þrjár og hálfa milljón króna í miskabætur en ríkið sækir einungis bætur upp að þremur milljónum. Því þarf sonur þeirra að sækja um hálfa milljón, sjálfur til Þorsteins. Faðir drengsins segir það skjóta skökku við að sonur þeirra þurfi að sækja þessar bætur sjálfur.
„Þorsteinn sem hefur tælt son minn með peningagjöfum fær þarna aðgang að honum aftur. Á sonur minn að sækja bætur til níðingsins. Ég mun auðvitað ganga eftir þessu en ekki hann en hvað með þolendur sem hafa ekki bakland? Hvernig á kerfið eiginlega að virka? Það þarf að taka þetta allt í gegn. Það skortir allan skilning á eðli kynferðisofbeldis í gegnum allt þetta kerfi og ferli. Frá upphafi til enda.“
Foreldrar drengins hafa fengið það staðfest að Þorsteinn muni afplána refsingu sína í opna fangelsinu Sogni. Fangelsismálastofnun hefur boðið þeim að láta þau vita ef hann fer í dagsleyfi, fær ökklaband eða á reynslulausn. Auk þess fengu foreldrarnir það staðfest að Þorsteinn hafi aðgang að tölvu og getur hann farið að senda tölvupóst.
„Við spurðum hvort það hefði ekkert að segja að gefin hefur verið ákæra á hendur honum fyrir brot gegn öðru barni. Og hvort ekki sé óeðlilegt að maður sem er dæmdur fyrir alvarleg kynferðisbrot fari í opið úrræði meðan málsmeðferð er í gangi í óskyldu máli gegn öðru barni. Þorsteinn braut ítrekað gegn nálgunarbanni og stór hluti brotanna sem hann var dæmdur fyrir voru framin eftir að hann var kærður. Ég spyr mig hvort þau hafi yfirhöfuð lesið dóminn yfir honum þegar það var ákveðið að hann færi í opið úrræði,“ segir faðirinn og móðirin bætir við: „Mér finnst réttmæt spurning vera, í ljósi reynslu okkar: Er kerfið meðvirkt með gerendum frá upphafi til enda?“