Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 42 ára konu í 90 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnaðarbrot og umferðarlagabrot.
Konan var meðal annars ákærð fyrir að hafa, þann 11. apríl 2017, stolið 10 pakkningum af lambakjöti úr verslun Bónuss við Helluhraun. Söluandvirði lambakjötsins var rúmar 13 þúsund krónur. Þá var hún ákærð fyrir að hafa í ágúst 2018 stolið kynlífsleikföngum að söluandvirði 18.790 krónur úr versluninni Adam og Evu við Kleppsveg. Loks var hún ákærð fyrir þjófnað á hreinlætisvörum úr verslun Bónus í Hranbæ í október 2018.
Konan var einnig ákærð fyrir umferðarlagabrot, en hún var staðinn að akstri undir áhrifum fíkniefna í janúar 2018. Í blóði mældist meðal annars amfetamín. Konan hefur áður komist í kast við lögin fyrir sambærileg brot. 90 daga fangelsisdómurinn yfir konunni er skilorðsbundinn til tveggja ára.