Svona hefst þráður sem aktívistinn Sigrún Bragadóttir skrifar á Twitter síðu sinni. Þar fer hún yfir það siðrof sem þjóðkirkjan vill meina að eigi sér stað hér á landi. „Kristinfræði hafa ekki verið tekin af aðalnámskrá grunnskóla. Henni hefur verið spyrt saman við önnur trúarbrögð og því heitir fagið trúarbragðafræði. En nóg um það. Það er nefnilega þetta með siðrofið,“ segir Sigrún en siðrofið sem Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, talaði um í vikunni hefur í kjölfarið verið mikið á vörum landsmanna.
„Kúnstin við að forðast siðrof felst nefnilega líka í því að forðast í lengstu lög að ýta undir/skapa aðstæður þar sem siðrof getur myndast. Eins og til dæmis að hylma yfir, halda hlífiskildi yfir og/eða hampa prestum sem gerast brotlegir í starfi og/eða einkalífi,“ segir Sigrún og kemur síðan með fjöldamörg dæmi um meint siðrof sem hafa átt sér stað innan þjóðkirkjunnar á síðustu árum
„Það er siðrof að hampa gömlu biskupi sem misnotaði dóttur sína og sýndi fermingarbörnum óviðeigandi hegðun. Það er siðrof að tilkynna ekki kynferðisbrot til lögreglu heldur taka á því á siðanefndarfundi.
Það er siðrof þegar prestar níðast á samstarfskonum sínum. Það er siðrif þegar kirkjuyfirvöld taka ekki mark á þeim. Þó þær séu 5 eða 6 sem tilkynna. Það er siðrof þegar prestur segir konu að harka af sér því hjónabandið sé heilagt þegar hún kemur til hans blá og marin.
Það er siðrof að sega börðu konunni að hún eigi að vera skilningsrík gagnvart eiginmanni sínum, og heimilishrotta, því hann sé svo stressaður um þessar mundir. Það er siðrof þegar prestur er haugafullur á Spáni og sýnir fermingarbarni sínum ósæmilega hegðun.
Það er siðrof að prestur áreiti þjálfara í líkamsræktinni og fái að messa í páskamessu, á fokking skíðum í Bláfjöllum. Með barnafjölskyldum í sólinni. Það er siðrof að prestur misnoti 5 ára barn. Það er siðrof að kynferðisbrotaprestar prediki í útvarpsmessum.
Það er siðrof þegar prestar ætlast til þess að kvenkyns sóknarbörnin þeirra faðmi þá af því prestunum finnist það svo gott. Það er siðrof þegar gerendur leita sérstaklega í vinna með börnum í kristilegu barnastarfi, svo þeir geti myndað traust til þess eins að brjóta á þeim.
Það er siðrof þegar kirkjan segir að hinsegin fólk sé ógeðslegt. Það er siðrof þegar prestar geta enn þann daginn í dag, árið 2019, neitað að gefa hinsegin fólk saman.
Það er siðrof þegar biskup sagði að hinsegin fólk ógildi merkingu orðsins hjónaband. Það var siðrof á sínum tíma að neita að jarðsetja homma sem létust úr eyðni.
Það að nota orðið siðrof til að lýsa framförum og umburðarlyndi í þróun kennslu og skólastarfs er ákveðið siðrof í sjálfu sér. Því þetta er sagt til að ala á skömm og sektarkennd. Rétt eins og gerendum er tamt að gera við brotaþola sína.“
Sigrún endar síðan þráðinn með því að að segja þjóðkirkjuna vera þrautþjálfaða í siðrofi.
„Ekki af því að hún á svo bágt og að fólk sé að skrá sig úr’enni. Heldur af því að þjóðkirkjan er vagga siðrofs. En rétt eins og aðrir gerendur, þegar þeir eru afhjúpaðir, er þjóðkirkjan gjörsamlega vanhæf um að vera dómbær á eigið siðrof.“