Vinir og aðstandendur Guðrúnar Maríu Gunnarsdóttir hafa stofnað styrktarreikning til að flytja jarðneskar leifar hennar heim til Íslands. Guðrún María var búsett í Þrándheimi í Noregi þar sem hún lést þann 29. október síðastliðinn. Guðrún var 27 ára að aldri þegar hún lést.
„Kæra fjölskylda og vinir! Sá sorglegi atburður hefur átt sér stað að yndislega Guðrún okkar lést þann 29. október í Þrándheimi í Noregi. Það eina sem hún vildi var að koma heim til fjölskyldunnar og ætlum við því að flytja hana heim til Íslands. Vegna mikils kostnaðar við slíkan flutning langar okkur að biðla til ykkar um aðstoð og hrinda af stað söfnun. Allur styrkur er vel þeginn og margt smátt gerir eitt stórt. Guðrún var ein hjartahlýjasta manneskja sem við áttum í okkar lífi og hún vildi svo sannarlega lifa en þetta var bara hörmulegt slys sem enginn gat komið í veg fyrir,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum Guðrúnar á Facebook. DV fékk góðfúslegt leyfi til að fjalla um málið.
Reikningsnúmer: 0370-22-019156
Kennitala: 040965-5059
Þá segir að Guðrún María hafi alist upp í Smárahverfi í Kópavogi frá sjö ára aldri eftir að hafa búið í Noregi sem barn. Hún var vinamörg enda góð og hlý við alla.
„Hún þurfti mikið knús og athygli en þróaði eins og mörg önnur börn fljótt með sér kvíða, kvíðann sem á endanum leiddi hana út í heim neyslunnar. Guðrún vildi ekkert heitar síðustu daga en að koma heim til fjölskyldunnar sinnar og var það svo sannarlega planið en endaði með skelfilegum afleiðingum sökum mikillar vanlíðanar. Guðrún vildi lifa. Hún á skilið að koma heim eins og hún er og viljum við fjölskyldan hennar að hún verði kistulögð hér á Íslandi. Það er kostnaður sem því fylgir sem við þörfnumst hjálpar við að standa undir.“