Félagsráðgjafinn er sagður ekki vera starfi sínu vaxinn í athugasemdum við færslu sem segir frá meintri vanhæfni hans.
„Árið 2018 yfirheyrði félagsráðgjafi hjá sýslumanni barn um ofbeldi sem það varð fyrir, eftir að barnið hafði mætt í fjölmörg viðtöl í Barnahúsi og sagt frá ofbeldinu, þar sem það var staðfest. Fulltrúinn hafði lofað þeim að spyrja ekkert út í ofbeldið áður en viðtalið byrjaði en stóð ekki við orð sín og þráspurði barnið um nákvæm smáatriði um ofbeldið þegar í viðtalið var komið.“
Síðan er samtal félagsráðgjafans og barnsins birt. Með því að birta samtalið er verið að sýna fram á meinta vanhæfni félagsráðgjafans sem þráspyr barnið til að koma öðrum hugmyndum að hjá því. Félagsráðgjafinn virðist ekki hlusta á það sem barnið hefur að segja og virðist vera sem hann reyni að afvegaleiða umræðuna síendurtekið. Samtalið sem Líf án ofbeldis birti milli félagsráðgjafans og barnsins má sjá hér fyrir neðan.
Félagsráðgjafinn: Okei. Þannig þú ert alveg ákveðin í því að ég má segja mömmu og pabba frá því sem þú sagðir mér? Þú ert ákveðin í því?
Barnið: Allavegana mömmu.
F: HA? Ekki…
B: Kannski ekki pabba?
Félagsráðgjafinn endurtekur setningu barnsins og spyr hvers vegna hún megi ekki segja frá því.
F: Þá verðurðu að segja mér aðeins betur frá því, hvað ertu að hugsa þegar þú ert að segja það?
Barnið fer að gráta og segir: Því hann vill alltaf fá okkur aftur..
F: Af því hann vill fá ykkur aftur?
Barnið grætur.
F: En viltu bara ekki að ég segi honum hvað þér finnst? Núna sé ég að þér líður illa og þú ferð að skæla þegar þú hugsar um þetta, hvað er það sem gerist þegar þú… hvað heldurðu að geti gerst?
B: Held bara að hann geri þetta aftur…
F: Okei… og þess vegna viltu ekki fara til hans? En á ég að segja pabba það? Að [nafn] vilji ekki fara af því þá er hún hrædd um að þetta gerist aftur? Hvað ertu hræddust við að gerist?
Félagsráðgjafinn lætur barnið endurtaka sömu hlutina aftur.
F: Þannig á ég að segja pabba það? Að hann hafi gert þetta og þess vegna viljirðu ekki fara aftur? Mmmhmm mhmmm… (í skrýtnum tón), ég skal allavegana segja honum hvað þér finnst.
Starf félagsráðgjafans hefur verið harðlega gagnrýnt í athugasemdunum. Fólk segir ráðgjafann vera að beita andlegu ofbeldi auk þess sem hann kúgar barnið. Er hann því sagður vera augljóslega ekki vaxinn sínu starfi.
„Þetta er rangt á svo marga vegu, og ekki unnið með hagsmuni barnsins í forgangi líkt og það á rétt á samkvæmt lögum. Ofbeldi á að túlka í víðum skilningi samkvæmt greinargerð með barnalögum. Minnstu vísbendingar á að taka alvarlega en hér virðist fulltrúinn halda að hún/hann sé að bjarga einhverju / afgreiða málið“
„Það alvarlegasta í kerfinu er að börn segja frá ofbeldi auk þess sem gögn liggja fyrir um heimilisofbeldi – en SAMT lítur sýslumaður framhjá því – þvert gegn barnalögum! Og úrskurðar börn í umgengni til ofbeldismanna.“
„Þetta er ekki viðtal og ekki samtal við barn, þetta er ógnun og hótanir af verstu gerð.“
„Þetta er kúgun. Andlegt ofbeldi. Manneskjan er að þvinga barnið og sennilega vona að það taki hluti til baka af hræðslu við að hún klagi í pabbann (sem barnið er augljóslega hrætt við).“
Líf án ofbeldis deilir svo fleiri dæmum um heimilisofbeldi á Íslandi. Þar koma fram átakanlegar sögur frá fólki sem hefur lent í heimilisofbeldi hér á landi.
“Barnið skallaði óvart í pabba sinn, hann brjálaðist tók mig niður, hélt um hálsinn á mér og sagði: drullastu til að passa upp á að þetta gerist aldrei aftur. Ég hélt hann myndi kyrkja mig til dauða á þessu augnabliki. Með barnið grátandi fyrir hliðina á mér.”
“Hann greip oft í klofið á mér fyrir framan börnin, þegar ég sagði honum að hætta, þá hló hann og sagði: ég á þig ég má gera allt sem mér sýnist við þig”
“Eftir að hafa öskrað á mig í langan tíma, kallandi mig allskyns nöfnum eins og: hóra, ógeð og margt meira, meðan ég sat og grét þá sagði kallaði hann mig grenjudúkku, aumingja og svo sagði ég mörgu sinnum: hættu, en hann hætti ekki svo ég endaði með að öskra hættu plis hættu! Þá sagði hann við mig: hvað er að þér, þú hræðir börnin með því að öskra svona fyrir framan þá.”
“Hann nauðgaði mér, með barnið hliðiná okkur”
Auk þess koma dæmi um meint vanhæfni sýslumanns sem sagði við fórnarlamb heimilisofbeldis að hún mætti ekki láta það bitna á börnunum að hann hafi beitt hana ofbeldi.
“Sýslumaður sagði að ég mætti ekki láta það bitna á börnunum að hann beitti mig ofbeldi. Ofbeldið sem hann beitti mig hefði ekkert að gera með hans foreldrahæfni”
Líf án ofbeldis vitnar því næst í skýrslu frá UNICEF sem sýnir fram þær gífurlegu afleiðingar sem verða þegar barn verður fyrir heimilisofbeldi.
„Afleiðingarnar af því að barn verði fyrir heimilisofbeldi eru gífurlegar og hafa rannsóknir sýnt fram á að það skipti ekki máli hvort barnið verði vitni af ofbeldinu eða verði fyrir því sjálft, afleiðingarnar eru jafnslæmar.“
Líf án ofbeldis hefur hrundið af stað hreyfingunni #lífánofbelsis vegna endurtekinna úrskurða og umfjallana í fjölmiðlum um umgengnis- og forsjármál þar sem börn eru skikkuð í umgengni við gerendur sína, barnaníðinga og ofbeldismenn. Undirskriftasöfnun hefur verið sett í gang til að mótmæla þessu.
„Þess er krafist að dómsmálaráðherra axli stjórnunarlega ábyrgð og tryggi öryggi barna og vernd gegn ofbeldi í réttarákvörðun um líf þeirra í forsjár- og umgengnismálum. Við krefjumst þess að lagaframkvæmd sýslumanna og dómara sé í reynd í samræmi við þær áherslur sem sammælst hefur verið um í núgildandi barnalögum um aukið vægi ofbeldis við ákvörðun forsjár og umgengni.
Við viljum koma þeim skilaboðum til samfélagsins og yfirvalda að vernd barna gegn ofbeldi í ákvörðun sýslumanna og dómara er ábótavant og mæðrum sem greina frá áhyggjum sínum af ofbeldi í forsjár- og umgengnismálum er gert ókleift að vernda börn sín. Framtakinu er ætlað að minna yfirvöld á skyldu sína gagnvart börnum og gagnvart þolendum ofbeldis. Stjórnvöldum ber skylda til að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að vernda börn gegn ofbeldi.“