Ljóðskáldið Engill Bjartur Einisson var gestur í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu í dag. Þar ræddi hann margt og mikið, næstu bók sína Ljóðgæti, Frímúrararegluna og sértrúarsöfnuð sem hann er í.
„Ég er í svona kirkju, eða andlegri reglu svokallaðri. Hún heitir Celestine Light og er með aðsetur í suður-Oregon, rétt við Kaliforníu-landamærin.“
„Þetta er svona trúfélag og í raun og veru bara ræktun andans sko. Við hlúum að þessum andlegu hliðum mannverunnar, því manni hættir oft svo til að falla í svona eitthvað hversdagstrans,“
„Þetta á nokkuð vel við mig sem rithöfund, þar sem að ég hef innsett mér það að kynna mér sem flest í heiminum.“
Segir Engill sem segir þessi ferðalög sín veita sér mikinn innblástur fyrir skrifin.
Engill ræddi einnig æsku sína sem hann sagði hafa verið óhefðbundna
„Ég var nú svolítið sérstakur krakki, ég var ekki mikið að leika við hina krakkana.“
“Æska mín var allt öðruvísi en æska annara og ég var mikill einfari og lengi vel mjög feiminn,“
Engill sagði að söfnuðurinn væri ekki kristinn þó að safnaðarmenn trúi á almættið og Jesú Krist, en hann ræddi um lífið í Celestine Light-kirkjunni og lýsti venjulegum degi þar á bæ.
„Þetta er eins og almennt kirkjustarf, við förum til dæmis mikið í fjallgöngur og við biðjum saman, við iðkum yoga saman. Þetta er ekki kristið, þó við trúum á Jesú Krist og hann sem son almættisins og erum með svona heilaga þrenningu, sem við trúum á líka.“
„Við blöndum allskonar andlegum nýaldar kenningum inn í þetta líka, meðal annars orkustöðvunum, hugleiðslu, yoga og allskonar svoleiðis dóti. Það sem við gerum á staðnum er meðal annars bara að skoða okkur um þarna í Oregon, því þetta er svo fallegur staður.“
Sjá einnig: Engill Bjartur leggur allt í sölurnar: „Það má segja að ég sé athafnaskáld“