Feel Iceland mun áfrýja ákvörðun Neytendastofu vegna máls 44/2019 um rangar og villandi staðhæfingar í markaðssetningu Feel Iceland á vörunni Amino Marine Collagen. Eins og kom fram í frétt dv.is í morgun hefur Neytendastofa bannað Feel Iceland að nota merkingar á vöruna þess efnis að hún sé alíslensk þar sem hún sé að miklu leyti framleidd erlendis þó að hráefnið sé íslenskt.
Feel Iceland staðhæfir að alvarlegar rangfærslur séu í úrskurði Neytendastofu:
,,Við höfum athugasemdir á málsmeðferð og uppruna kvörtunarinnar og einnig eru alvarlegar rangfærslur í niðurstöðu Neytendastofu. T.d. hefur Feel Iceland aldrei framleitt vörur í Kína. Við hjá Feel Iceland höfum aldrei reynt að villa um fyrir neytendum okkar og höfum ávallt talað um að við látum framleiða kollagen úr íslensku fiskroði fyrir okkar í Kanada til þess að ná fram þeim gæðum sem við gerum kröfur um en slíkur vélabúnaður er ekki til hér á landi. Önnur framleiðsla á sér stað á Bíldudal og Grenivík, ” segir Hrönn Margrét Magnúsdóttir framkvæmdastjóri og annar stofnandi Feel Iceland.
Þess má geta að kvörtun til Neytendastofu vegna þessarar merkingar Feel Iceland kom frá Protis en það er dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga. Feel Iceland er aftur á móti lítið frumkvöðlafyrirtæki.