Tilkynnt var um umferðaróhapp á Vesturlandsvegi, við Bauhaus, rétt fyrir klukkan tvö í nótt. Þar hafði bifreið verið ekið upp á hringtorg, en sem betur fer urðu engin slys á fólki.
Í dagbók lögreglu kemur fram að ökumaðurinn sé grunaður um ölvun við akstur og var hann vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins. Á vettvangi kom í ljós að annan hjólbarða bifreiðarinnar að framan vantaði og hafði ökumaðurinn ekið á felgunni frá Ártúnsbrekku þar sem tilkynnt var um hjólbarða á akbraut.
Lögreglu var tilkynnt um slagsmál í heimahúsi í vesturbænum rétt fyrir klukkan 22 í gærkvöldi. Einn var fluttur á slysadeild með sár á enni en sá sem veitti viðkomandi áverkann var fluttur á lögreglustöð. Honum var sleppt lausum að loknum viðræðum. Þá var tilkynnt um innbrot í Hafnarfirði á áttunda tímanum í gærkvöldi. Búið var að spenna upp glugga, fara inn og stela verðmætum.
Þá var tilkynnt um árekstur á Úlfarfellsvegi klukkan 20:30 í gærkvöldi. Ekki urðu slys á fólki en annar ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og ofbeldi gegn lögreglu. Ökumaðurinn var vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.
Þessu til viðbótar voru nokkrir ökumenn teknir úr umferð, ýmist vegna gruns um ölvunarakstur eða akstur undir áhrifum lyfja.