Lögreglan á Suðurlandi sektaði 92 ökumenn fyrir of hraðan akstur í umdæminu í síðustu viku. Sektarupphæðin nemur samanlagt rúmlega 7,5 milljónum króna. Tveir af hverjum þremur sem fengu sekt voru erlendir ferðamenn.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu yfir verkefni liðinnar viku.
Þá segir einnig að tólf umferðaróhöpp hafi átt sér stað í umdæminu í síðustu viku. Í gærmorgun fauk bifreið út af veginum við Hunkubakka og valt. Tveir voru í bílnum og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð til að flytja þá af vettvangi. Ekki liggja fyrir upplýsingar um aðdraganda slyssins eða ástand þeirra sem slösuðust.
Þá fauk bifreið út af Suðurlandsvegi við Núpsstað, en ökumaður hafði skömmu áður komið til landsins með Norrænu. Meiðsl ökumannsins voru sem betur fer minniháttar.
Loks höfðu ferðamenn í tveimur aðskildum málum samband við lögreglu og óskuðu eftir aðstoð þar sem þeir höfðu fest bifreiðar sínar á Kjalvegi. Þeim var komið í samband við dráttarbílaþjónustu sem aðstoðaði þá við að komast til byggða.