Innkaup og hvers kyns verslun hefur í auknum mæli færst yfir á internetið undanfarin ár. Nú er svo komið að jafnvel er hægt að gera heimilisinnkaupin úr sófanum heima hjá sér. Ótal vefverslanir standa neytendum nú til boða, bæði fjöldi íslenskra síðna og svo heilt haf af erlendum verslunum. Í síðasta mánuði greindi DV frá versluninni Renmax sem seldi ryksuguvélmenni á meintum kostakjörum. Þá höfðu áhyggjufullir viðskiptavinir verslunarinnar sett sig í samband við DV vegna meintra svika. Renmax var um ársgömul verslun en hafði þegar þarna var komið lokað heimasíðu sinni og hætt að svara erindum viðskiptavina, sem enn biðu þess að fá ryksugur afhentar sem þeir höfðu þó greitt fyrir. Þetta er engan veginn einangrað tilfelli. Annað fyrirtæki hefur til dæmis á um ári verið með þrjár mismunandi Facebook-síður; Frostvorur.is, Góðkaup og Heimilisvörur, og hefur verið kvartað yfir þeim öllum. Sendingar skila sér illa eða alls ekki og erindum svarað hægt eða alls ekki.
Hér hafa verið teknar saman nokkrar viðmiðunarreglur sem gott er að hafa í huga þegar verslað er af netinu til að minnka líkurnar á að sitja eftir með sárt ennið.
Áður en gengið er til kaupa á netinu þá áttu rétt á að fá að vita hver það er sem er að selja vöruna. Þetta geta verið upplýsingar á borð við nafn og heimilisfang seljanda, en án slíkra upplýsinga getur reynst erfitt að hafa uppi á seljandanum til að kvarta eða til að skila vöru. Einnig er gott að venja sig á að slá versluninni, eða seljandanum upp í leitarvél, til dæmis Google eða jafnvel í leitarglugganum á Facebook. Þaðan gætu fengist upplýsingar frá öðrum viðskiptavinum sem eftir atvikum gætu haft áhrif á ákvörðun þína um að versla við þessa tilteknu verslun eða seljanda.
2. Má ég hætta við kaupin ?
Ef þú ert að versla við seljanda sem er staðsettur á Íslandi eða öðru ríki með aðild að evrópska efnahagssvæðinu þá hefurðu rétt á að hætta við kaupin innan 14 daga frá afhendingu og fá endurgreitt að fullu. Þessi regla byggir á því að þegar vara er keypt á netinu þá hefur þú ekki fengið tækifæri til að skoða hana fyrirfram. Hins vegar áttu ekki rétt á að fá endursendingarkostnaðinn endurgreiddan. Ef um sérpöntun er að ræða, eða ef innsigli vörunnar hefur verið rofið, þá er eftir atvikum ekki hægt að skila vörunni. Þessi regla á ekki við þegar verslað er utan EES-svæðisins, svo sem við verslun sem er staðsett í Kína eða í Bandaríkjunum.
3. Hvar get ég fengið hjálp ef brotið er á rétti mínum?
Fyrst og fremst getur þú haft samband við seljandann sjálfan. Stærri seljendur eru oft með sérstaka starfsmenn, eða netföng sem taka við kvörtunum þar sem hvert erindi er metið út af fyrir sig út frá söluskilmálum sem þú samþykktir við kaupin. Hjá minni seljendum er oft ekki fyrir slíkum eyrnamerktum kvörtunarferlum að fara og þá er best að snúa sér beint til seljanda, með tölvupósti, símleiðis eða þar fram eftir götum. Ef sú leið ber ekki árangur þá eru einnig aðrar leiðir sem gætu verið þér færar.
Ef seljandi er íslenskur þá getur þú snúið þér til Neytendasamtakanna og fengið þaðan aðstoð og/eða eftir atvikum ráðleggingar.
Neytendastofa hefur eftirlit með viðskiptum í gegnum netið á grundvelli laga um neytendasamninga.
Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa getur einnig gefið álit í málum en þau eru ekki bindandi.
Ef þú telur erlendan seljanda á netinu hafa brotið gegn rétti þínum þá getur þú leitað til EEC á Íslandi. Þaðan verður erindi þitt áframsent til EEC-stöðvar í heimalandi seljanda sem tekur svo á málinu.
Ef þú borgaðir fyrir vöru með kreditkorti en fékkst hana aldrei afhenta þá getur þú haft samband við kortafyrirtæki þitt. Slíkt verður þú að gera innan þriggja mánaða frá áætlaðri afhendingu. Kortafyrirtækið fer þá í málið og hefur samband við seljanda til að kanna hvort varan hafi verið send. Ef slík sönnun fæst ekki þá bakfærir kortafyrirtækið greiðsluna. Eins ef þú hefur greitt fyrir vöru með millilið á borð við Netgíró þá getur þú haft samband við milliliðinn og eftir atvikum fengið endurgreitt.
4. Skoðaðu vefslóðina
Til að tryggja öryggi góðra netverslana er slóð þeirra dulkóðuð. Slóðin byrjar þá á https í staðinn fyrir http. Við hlið slóðarinnar ætti að vera mynd af læstum lás.
5. Það kostar að fá vöru til Íslands frá útlöndum
Í erlendri vefverslun getur lágt verk verið söluhvetjandi. Síðan gætir þú orðið fyrir vonbrigðum þegar vara berst hingað til lands og þú þarft að greiða af henni aukakostnað á borð við virðisaukaskatt, toll, umsýslugjald, sendingargjald, tollskýrslugerð og svo framvegis. Til dæmis væri virðisaukaskatturinn af sendingu sem kostaði 15.000 krónur 3.600 krónur. Síðan rukkar Íslandspóstur 450 krónur í umsýslugjald, og 400–600 krónur í sendingargjald. Ofan á þetta getur bæst geymslugjald ef sendingin er ekki sótt tímalega á pósthúsið, kostnaður við að opna pakkann og leita að reikningi í sendingunni. Þarna eru þessar 15 þúsund krónur orðnar að um 20 þúsund krónum. Ágætt er að miða við að lokaverð vörunnar eftir að hún er hingað til lands komin sé um 25–33 prósentum hærra en upprunalegt verð. Ef varan er mjög ódýr þá getur kostnaður við að fá hana afhenta á Íslandi numið margföldu verði hennar.
6. Er ég virkilega að gera góð kaup ?
Nokkuð hefur borið á því undanfarið að vefverslanir skjóti upp kollinum og bjóði kostakjör á gæðavörum. Við nánari skoðun reynast gæðavörurnar vera pantaðar frá erlendum söluaðilum á borð við AliExpress eða ebay á aðeins broti af því „kostaboði“ sem þær bjóðast á hér heima. Eftirminnilegt var til dæmis í vetur þegar DV greindi frá því að áhrifavaldurinn Tanja Ýr Ástþórsdóttir, væri að selja glingur af AliExpress á uppsprengdu verði. Neytendum er að sjálfsögðu frjálst að ganga skammarlaust til slíkra viðskipta, til dæmis ef þeim þykir hentugra að skipta við millilið og þeir eru tilbúnir til að borga fyrir það aukagjald. Hins vegar er alltaf best að ganga til viðskipta með bæði augun opin, meðvitaður um hvað maður er að kaupa.