fbpx
Fimmtudagur 10.júlí 2025
Fréttir

Fórnarlamb skotárásarinnar á Eyrarbakka stígur fram: „Svo kom blossi og allt fylltist af reyk“

Auður Ösp
Laugardaginn 26. október 2019 08:10

Opnar sig Ágúst vill segja sína sögu til að hjálpa öðrum. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í febrúar 2013 var skotið á hús Ágústs Valdísarsonar og þáverandi unnustu hans á Eyrarbakka. Ástæðan var Facebook-færsla þar sem dæmdur kynferðisbrotamaður var nafn- og myndbirtur. Atburðurinn hafði djúpstæð áhrif á Ágúst en hann greindist með áfallastreituröskun í kjölfarið.

Íslenskir fjölmiðlar greindu frá málinu á sínum tíma. Þannig hljómaði tilkynning lögreglu:

Fjórir voru handteknir eftir að skoti var hleypt á íbúðarhús á Eyrarbakka í nótt. Lögreglan á Selfossi lagði hönd á haglabyssu sem fjórmenningarnir, þrír karlar og ein kona, höfðu í fórum sínum. Sérsveitarlögreglumenn voru kallaðir til eftir að skotinu var hleypt af, en högl lentu á vegg við eldhúsglugga þar sem ungur maður stóð fyrir innan. Mesta mildi þótti að ekki hefði farið verr. Fjórmenningarnir dvelja í fangageymslu lögreglunnar á Selfossi og bíða yfirheyrslu, en það er tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem sér um tæknirannsókn. Atvikið er litið alvarlegum augum og rannsókn verður framhaldið í dag.

Facebook-færsla var kveikjan að árásinni

Ágúst býr enn í dag í sama húsinu á Eyrarbakka, ásamt þriggja ára syni sínum, og vill hvergi annars staðar vera.

Hann segist ennþá muna atburðarásina þessa nótt í febrúar árið 2013. Þáverandi unnusta hans hafði farið út að skemmta sér fyrr um kvöldið, en tilviljun réð því að dóttir hennar, stjúpdóttir Ágústs, var í pössun.

Vill ekki fara Ágúst býr enn í sama húsinu á Eyrarbakka. Mynd: Eyþór Árnason

Rúmlega viku áður hafði unnusta Ágústs birt færslu á Facebook þar sem hún nafn- og myndbirti fjölskyldumeðlim sem hafði hlotið dóm fyrir að brjóta á henni kynferðislega. Ágúst segir að það hafi þó ekki verið neinn aðdragandi að árásinni dagana á undan.

„Um þrjú leytið um nóttina hringdi síminn minn. Sá sem hringdi spurði hvort ég ætti svartan og rauðan Nissan-bíl og þegar ég sagði já þá var mér sagt að það væri búið að „bömpa“ bílinn.“

Sá sem hringdi reyndist vera vinur bróður unnustu Ágústs. Skömmu síðar tók parið eftir grunsamlegum mannaferðum við húsið og síðar heyrðist einhver kalla nafn unnustunnar. Það reyndist vera bróðir hennar, sem sagðist vera ósáttur við færsluna fyrrnefndu á Facebook. Þrír félagar hans, tveir karlar og ein kona, voru með í för.

„Við fórum aftur inn í húsið og hún hringdi á Neyðarlínuna. Þetta var um hálf fimm leytið. Ég sá síðan út um gluggann að Volkswagen-bílinn var ennþá þarna. Það vildi svo til að ég var með gamla öxi inni hjá mér, ég greip hana og fór út til þeirra til að reka þá í burtu. Þá óku þeir í burtu. Ég veit að það eru örugglega margir sem skilja ekkert í því að ég hafi sýnt þessi viðbrögð, að rjúka svona út. En eitt af því sem hefur hjálpað mér að komast yfir þetta er að ég er sáttur við að hafa brugðist við á þennan hátt,“ segir Ágúst og tekur undir með að það sé í raun ómögulegt að segja til um hvaða viðbrögð fólk sýni í slíkum aðstæðum, þegar að þeim er vegið.

Ágúst segir unnustu sína því næst hafa hringt á lögregluna á Selfossi. Á meðan stóð hann við gluggann í upplýstu eldhúsinu til að kanna hvort fjórmenningarnir væru komnir aftur.

„Allt í einu sá ég svo bílinn keyra hægt niður götuna og framhjá húsinu okkar. Ég sá eitthvað sem var eins og rör koma út um gluggann á bílnum. Svo kom blossi og allt fylltist af reyk. Ég man þetta ennþá, ég gleymi þessu aldrei.“

Skotið hafnaði á vegg rétt fyrir neðan eldhúsgluggann. Það vildi til að unnusta Ágústs var einmitt með lögregluna á Selfossi í símanum á sama tíma og skotinu var hleypt af.

Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að lögreglan á Selfossi hafi óskað eftir því að sérsveit lögreglustjóra myndi aka í forgangsakstri að húsinu. Vopnaðir lögreglumenn lögðu umsvifalaust af stað frá Reykjavík. Þegar lögreglubifreiðin var stödd við syðri námu Lambafells á Þrengslavegi mætti hún svartri Volkswagen-bifreið og stöðvaði hana. Fjórmenningarnir voru í bifreiðinni. Undir mottu í farangursrými lá svört haglabyssa. Fjórmenningarnir voru handteknir og færðir í fangaklefa.

Brotnaði niður

Ágúst segir atburðarásina næstu daga þokukennda. Það hafi verið erfitt að lesa fréttir í fjölmiðlum um málið.

„Það kvisuðust einhverjar sögusagnir um að þetta hefði verið tengt dópi og undirheimunum. Ég hef aldrei snert fíkniefni og myndi aldrei gera. Ég fékk líka símtöl frá fréttamönnum. Ég skellti strax á.“

Ágúst segir atburðinn stöðugt hafa sótt á hann næstu vikur og mánuði, og að sumu leyti enn í dag.

„Ég fékk martraðir á nóttunni og hrökk upp. Mér brá við að heyra minnstu hljóð fyrir utan húsið og fór í vörn. Það er meira að segja ennþá þannig í dag, ef ég heyri einhver hljóð eða læti fyrir utan húsið þá hrekk ég við. Ofan á þetta bættust eldri áföll, ýmiss konar hlutir úr fortíðinni sem ég hafði ekki gert upp,“ segir hann og bætir við að hann hafi tekið meðvitaða ákvörðun tólf ára gamall um að hann ætlaði ekki að tala um tilfinningar sínar. Það var til að mynda vegna þess að hann ólst upp við alkóhólisma.

Líkt og svo margir þá tókst Ágúst á við atburðinn með því að grafa allt saman niður og halda áfram með daglegt líf: vinna, borða og sofa. Hann vildi líka vera sterkari aðilinn, vera til staðar fyrir unnustu sína og stjúpdóttur. Það átti eftir að draga dilk á eftir sér.

Dró dilk á eftir sér Árásin hafði djúpstæð áhrif á líf Ágústs. Mynd: Eyþór Árnason

„Svo kom að því að ég fékk bara taugaáfall. Einn daginn fékk ég bara taugaáfall. Ég fór úr vinnunni, settist út í bíl, keyrði í burtu og brotnaði niður. Ég hef ekki unnið síðan.“

Ágúst fékk hjálp í gegnum vin sinn sem hafði sótt tíma hjá geðlækni. „Hann sagði lækninum að hann yrði að taka við mér. Ég fékk símtal samdægurs. Það bjargaði mér.“

Augljós ásetningur

Ágúst segir vinnubrögð lögreglu í málinu hafa verið til fyrirmyndar. Tekið hafi verið á málinu af mikilli fagmennsku. Hann gagnrýnir hins vegar vinnubrögð ákæruvaldsins. Fjórmenningarnir voru einungis kærðir fyrir vopnalagabrot.

Þú telur að þau hafi átt að vera kærð fyrir til dæmis tilraun til manndráps eða eitthvað alvarlegra?

„Já, alveg hiklaust. Vegna þess að þetta var augljós brotavilji. Þeir höfðu fyrir því að leita að húsinu og það var alveg augljóst hvað þeir ætluðu að gera.“

Ágúst og unnusta hans lögðu bæði fram bótakröfu á hendur fjórmenningunum. Fram kemur í kröfubréfi að um hafi verið að ræða „sérstaklega fólskulega og hættulega árás þar sem skotvopni var beitt“ og að telja verði að hending ein hafi ráðið því að skotið hæfði rúðuna í eldhúsinu og þannig hugsanlega einnig tjónþola eða sambýlismann hennar sem voru inni í húsinu.“

Á öðrum stað segir að líta verði til þess að árásin átti sér stað á heimili parsins og því gróflega brotið gegn friðhelgi heimisins.

Ekkert kom hins vegar út úr bótakröfunni. „Ég fékk einhverjar 47 þúsund krónur í bætur, vegna skemmda á húsinu. Það var allt og sumt.“

Vill hjálpa öðrum

Ágúst er í dag í prógrammi hjá VIRK og ber því vel söguna. Hann sækir tíma hjá sálfræðingi og það hefur reynst honum vel. Hann tekur einn dag í einu.

Fyrr á árinu tók Ágúst stórt skref og birti færslu á Facebook þar sem hann opnaði sig að hluta til um baráttuna síðustu ár.

„Rétt tæpum sex árum eftir þetta eru loksins komnar útskýringar. Ég er kominn með PTSD-greiningu og útskýrir það rosalega margt sem hefur verið í gangi hjá mér í gegnum síðustu ár. PTSD er Post Traumatic Stress Disorder eða áfallastreituröskun á íslensku. Ég mun byrja í meðferð við þessu von bráðar og ætla að koma þessu á bakvið mig. Ég óska engum að fá þennan ófögnuð í sitt líf. Þetta hefur plagað mig miklu meira en mér mögulega datt í hug.“

Á öðrum stað ritaði hann: „Ég er að reyna að hafa þetta þannig að ég skammist mín ekki fyrir þetta. Ég hitti fólk reglulega sem spyr „hvað ég sé að gera og svona“ eftir að ég hætti að vinna. Ég finn einhvern veginn alltaf fyrir smá skömm varðandi svona veikindi. Ég fer að afsaka mig og þannig. Mig langar það ekki og ég þarf þess ekki.“

Hann vonar að hans frásögn muni kannski hjálpa einhverjum þarna úti sem er að glíma við afleiðingar áfalla. Það er mikilvægt að vita að maður er ekki einn.

„Ég hef mikið tekið eftir því undanfarið, að fólk tali við mig, þar sem það segist hafa verið í svipaðri stöðu og fengið smá pepp og byr undir sína vængi við að sjá mig opna mig aðeins um þetta. Ég hef oft staðið orðlaus yfir fólki sem ég þekki kannski ekki neitt náið. Þau koma til mín og þakka mér fyrir þennan status. Mér  finnst það bara frábært að getað hjálpað einhverjum, því nógu djöfulli er þetta erfitt fyrir.

Ég er mikið í bílum og bíladellu, hef hitt stráka þar sem hafa opnað sig við mig eftir þennan status. Bara síðast var það í byrjun þessa mánaðar. Ég hitti gaur til að kaupa af honum vetrardekk undir bíl sem ég er að laga. Eftir mikið spjall sagði hann mér frá heilmiklu sem er að hrjá hann og hans taugaáfalli, sem nánast enginn vissi af. Hann hafði orð á að það hefði verið svo mikill léttir þegar hann sá minn status, að hann væri ekki einn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Séra Daníel segir Biblíuna ekki fræðirit um kynvitund – „Notum ekki Biblíuna sem viðmið fyrir læknisfræði í dag“

Séra Daníel segir Biblíuna ekki fræðirit um kynvitund – „Notum ekki Biblíuna sem viðmið fyrir læknisfræði í dag“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Þrjátíu ára brúðkaupsafmælisferðin til Íslands endaði með harmi – „Mér fannst eins og þeir væru að kalla mig lygara“

Þrjátíu ára brúðkaupsafmælisferðin til Íslands endaði með harmi – „Mér fannst eins og þeir væru að kalla mig lygara“
Fréttir
Í gær

Sigurður ber Auðunn saman við Jesú Krist og segir áhrif hans ekki leyna sér – „Árið er 45 E.AB“

Sigurður ber Auðunn saman við Jesú Krist og segir áhrif hans ekki leyna sér – „Árið er 45 E.AB“
Fréttir
Í gær

Segir Bjarna hafa mokað peningum til einkafyrirtækja með gríðarlegum skattaafslætti

Segir Bjarna hafa mokað peningum til einkafyrirtækja með gríðarlegum skattaafslætti