Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna yfir karlmanni um tvítugt vegna alvarlegrar líkamsárásar í Reykjavík um síðustu helgi. Maðurinn er því laus úr haldi, en úrskurðurinn hefur verið kærður til Landsréttar.
Maðurinn var handtekinn á vettvangi miðsvæðis í borginni um síðustu helgi og í kjölfarið úrskurðaður í sex daga gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en það rann út í dag.
Í tilkynningu Lögreglunnar segir að hún hafi áður tekið ákvörðun um að karlmanninum yrði gert að sæta sex mánaða nálgunarbanni gagnvart brotaþola.