Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands þess efnis að maður, sem lögregla hefur ítrekað haft afskipti af síðustu vikur, skuli sæta gæsluvarðhaldi til 15. nóvember næstkomandi. Landsréttur felldi úrskurð sinn í dag en úrskurður héraðsdóms féll á laugardag.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurlandi kemur fram að maðurinn sé erlendur ríkisborgari. Hann var handtekinn fimmtudaginn 17. október síðastliðinn í tengslum við við rannsókn lögreglu er varði meintar hótanir, frelsissviptingu og vopnalagabrot.
„Brot varnaraðila muni þá hafa verið nýafstaðin. Lögregla hafi komið á vettvang meintra brota og hitt þar fyrir brotaþola, sem hafi verið í miklu uppnámi og mjög óttasleginn. Brotaþoli og vitni hafi gefið skýrslu hjá lögreglu í dag og samræmist framburður þeirra framburði brotaþola um meint brot varnaraðila. Þá hafi verið tekin skýrsla af varnaraðila, en hann hafi neitað að tjá sig um meint brot.“
Þá kemur fram að í skráningarkerfi lögreglu (löke) komi fram að lögregla hafi ítrekað haft afskipti af manninum undanfarnar vikur og brotahrina hans verið sleitulaus. Þannig hafi komið upp að minnsta kosti tíu ný mál á borð lögreglu á hendur honum og í flestum þeirra mála séu fleiri en einn brotaliður til rannsóknar.
„Við uppflettingu í lögreglukerfi komi fram að varnaraðili sé hættulegur einstaklingur og gæta verði varúðar í samskiptum við hann, enda hafi hann ráðist að lögreglumönnum,“ segir í úrskurðinum.
Lögreglustjóri taldi að gæsluvarðhald væri ekki aðeins nauðsynlegt til að stöðva yfirstandandi brotahrinu heldur einnig til að verja aðra fyrir árásum mannsins. Héraðsdómur féllst á gæsluvarðhaldskröfuna og staðfesti Landsréttur þann úrskurð í dag. Skal maðurinn því sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. nóvember næstkomandi.