„Ég hef aðeins verið hugsi yfir hvort við sem samfélag þyrftum ekki oftar að huga að því hvernig okkur líður,“ segir Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ágúst Ólafur hefur tekið saman sex býsna athyglisverðar staðreyndir um andlega heilsu Íslendinga, staðreyndir sem eru ekki mjög upplífgandi en þó mjög upplýsandi.
„1. Hjálparsími Rauða krossins fær tæplega 3 símtöl á dag vegna sjálfsvígshugsana.
2. Á 10 daga fresti er framið sjálfsvíg á Íslandi.
3. Síðan deyr annar Íslendingur vegna ofneyslu lyfja, einnig á 10 daga fresti, allt árið um kring.
4. Sjálfsskaðar meðal ungmenna hafa aukist og eru tölurnar bæði sláandi háar og sorglegar í senn.
5. Um 50 þúsund Íslendingar taka þunglyndislyf.
6. Íslendingar eiga heimsmet í neyslu þunglyndis- og kvíðastillandi lyfja.“
Ágúst bendir á að nú hellist skammdegið og morgunkuldinn yfir okkur, en samfélagsmiðlarnir haldi áfram að sýna hina dökku mynd um að grasið sé ætíð grænna hinum megin.
„Nú veit ég ekki hvað okkur sem samfélagi ber að gera. Einhvers staðar las ég að lykillinn að lífshamingjunni væri að finna til tilgangs með lífi sínu. Þá hlýtur samneyti við vini og fjölskyldu að skipta miklu máli. Maðurinn er félagsvera og maður er manns gaman. En vandinn er óneitanlega fyrir hendi og hann fer versnandi. Hvað er hægt að gera?“