Ginger Baker, trommuleikari hinnar frægu rokkhljómsveitar Cream, er látinn, 80 ára að aldri. Þetta kemur meðal annars fram hjá ABC news.
Baker var afar flinkur blúsari og jazzisti og beindi tækni þeirra tónlistarstefna inn í trommuleikinn í rokkbandinu Cream sem þykir hafa verið framúrskarandi hljómsveit. Baker hefur verið settur í flokk með bestu trommurum rokksögunnar við hlið manna á borð við Keith Moon úr The Who og Jon Bonham úr Led Zeppelin.
Cream var tríó og aðrir hljómsveitarmeðlimir voru Eric Clapton og Jack Bruce.
Andlát Ginger Baker bar að garði í morgun og að sögn fjölskyldu var dauðdagi hans friðsæll en Baker hafði lengi legið mikið veikur á spítala.
Hér að neðan má sjá Cream flytja eitt sitt þekktasta lag, White Room, á tónleikum árið 2005, er sveitin kom þá saman á ný eftir langt hlé.