Á áttunda tímanum í morgun var óskað eftir lögreglu að Höfðabakkabrú vegna umferðarslyss. Tveir ökumenn fluttur til skoðunar á slysadeild en meiðsli eru talin vera minniháttar. Báðir bílarnir voru fluttir af vettvangi með dráttarbíl. Annar ökumannanna er grunaður um að hafa ekið gegn rauðu ljósi.
Þetta kemur fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í yfirliti yfir verkefni dagsins. Þar segir einnig frá bílveltu sem varð á Hafnarfjarðarvegi rétt fyrir klukkan 9 í morgun. Bíllinn var fluttur burt með drattarbíl. Ökumaðurinn hlaut minniháttar meiðsli.
Klukkan hálfellefu í morgun var tilkynnt um innbrot í bílageymslu í Vallarhverfinu í Hafnarfirði. Hlutum tengdum viðhaldi og umhirðu ökutækja var stolið. Slökkvilið var fengið á vettvang til að hreinsa olíu.
Á tólfta tímanum var brotist inn í heimahús í Vesturbæ Reykjavíkur og reiðhjóli stolið.
Í hádeginu var tilkynnt um eignaspjöll á níu bílum í Fossvogshverfinu. Ekki var vitað nánar um skemmdirnar.
Um svipað leyti var tilkynnt um innbrot í bíl í Vesturbænum. Fatnaði og tölvubúnaði var stolið úr bílnum.
Klukkan hálftvö í dag var tilkynnt um innbrot í bíl í Rimahverfi í Grafarvogi. Ekki ljóst hverju var stolið.
Þá var tilkynnt um þjófnað á farsíma í Árbæ og tvo minniháttar árekstra í Reykjavík.