Á tíunda tímanum í gærkvöld var tilkynnt um mann úti á Granda sem hélt á exi. Maðurinn var í annarlegu ástandi. Hann var handtekinn skömmu síðar og vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu. Tvær axir voru haldlagðar. Áður hafði verið tilkynnt um öskrandi mann með exi en hann fannst ekki.
Þetta kemur fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Um svipað leyti og ofangreint atvik varð var ráðist á starfsmann á veitingahúsi í Miðbænum. Var hann sleginn í andlitið. Lögregla hafði afskipti af árásarmanninum.
Um níuleytið í gærkvöld varð útafakstur á Vesturlandsvegi. Engin meiðsl urðu en ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna sem og vörslu þeirra sem og akstur án réttinda. Hann var vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins og bíllinn dreginn burtu.