„Ég heyrði í Gunnari í síma áðan og það er þokkalegt hljóð í honum. Hann er edrú og hefur verið það frá handtöku, og er orðinn einskonar verkstjóri á ganginum. Hann tekur að sér alla vinnu sem býðst. Andlega er hann sterkari en hann var en áður grét hann bara og grét. Ég næ að fá hann til að hlæja af og til,“ segir Heiðar Þórðar, hálfsystir Gunnars Jóhanns Gunnarssonar sem varð bróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, að bana, þann 27. apríl, í smábænum Mehamn í Finnmörku í Norður-Noregi. Gunnar situr í gæsluvarðhaldi í Noregi fram að réttarhöldunum sem verða 2. desember.
Gunnar skaut Gísla í lærið með þeim afleiðingum að honum blæddi út. Þó að Gunnar hafi komið heim til Gísla vopnaður rifli og orðið sér út um skotvopnið skömmu áður telur Heiða að hann hafi ekki ætlað að bana bróður sínum. Hið sama mátti lesa í örvæntingarfullri Facebook-færslu Gunnars rétt eftir voðaverkið.
Vinslit urðu milli bræðranna eftir að Gísli tók upp samband við eiginkonu og barnsmóður Gunnars. Áður voru þeir bestu vinir. Um þetta leyti voru Gunnar og kona hans nýskilin en hann stóð í þeirri trú að þau tækju saman aftur og fór meðal annars í áfengismeðferð í von um að ná að endurvekja sambandið. Þess má geta að Gísli og eiginkona Gunnars bjuggu ekki saman, svo langt hafði samband þeirra ekki náð.
„Alla þeirra tíð voru þeir mjög nánir. Gísli og Gunni voru bestu vinir þar til þetta kom upp með samband Gísla við konu Gunnars. Gunni virkaði oft einsog Prosac á Gísla því hann átti það til að vera þungur. Mjög ólíkir, Gunni hefur alla tíð verið vinmargur og vinsæll, alltaf kátur og hress hrókur alls fagnaðar. Elskar af öllu hjarta og gerir allt fyrir þá sem hann elskar. Hörkuduglegur líka,“ segir Heiða.
„Ég hef alla tíð trúað því að þetta hafi verið slys og núna er ég sannfærðari en nokkurn tíma fyrr,“ segir Heiða en hún telur sig búa yfir upplýsingum sem styðji enn frekar tilgátu um slys. Hún getur ekki veitt þær upplýsingar í augnablikinu en hugsanlega á næstunni.
Heiða flýgur til Noregs þann 1. desember og verður viðstödd réttarhöldin. Hugsanlegt er að hún verði kölluð til sem vitni við réttarhöldin.