Þolandi manns sem dæmdur var í fjögurra ára fangelsi í vor fyrir mjög alvarlegt kynferðisbrot hefur vonda sögu af segja af viðmóti lögreglu við sig við rannsókn málsins. Móðir konunnar sem varð fyrir ofbeldinu hefur skrifað dómsmálaráðherra opið bréf vegna málsins, þar sem langur málsmeðferðartími og skortur á upplýsingagjöf eru á meðal gagnrýnisatriða. Afbrotið var framið vorið 2017. Fréttablaðið greinir frá þessu í ítarlegri úttekt.
Málið er óvenjulegt. Maðurinn, sem er 26 ára, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að hafa villt á sér heimildir og unga konu til kynmaka. Maðurinn fékk hana til að koma á hótelherbergi með bundið fyrir augun þar sem hann síðan nauðgaði henni. Hann kúgaði hana einnig til kynmaka með öðrum mönnum. Blekkingar mannsins voru úthugsaðar. Hann stofnaði Snapchat-reikning þar sem hann þóttist vera annar ungur maður sem hún þekkti. Hann átti í samskiptum við hana í 20 mánuði undir fölsku flaggi,“ segir í umfjöllun Fréttablaðsins.
Vegna blekkinga mannsins kærði konan annan mann fyrir glæpinn, mann sem hún þekkti. Vegna þessa mætti hún mjög kuldalvegu viðmóti rannsóknarlögreglukonu sem yfirheyrði hana. Um þetta segir konan:
„Svo fékk ég símtal frá réttargæslumanni mínum sem tjáði mér að annar maður hefði verið handtekinn. Ég fékk ekki að vita af hverju þó að seinna hafi komið í ljós að þarna hefði hinn rétti gerandi verið handtekinn. Þegar ég fór aftur í skýrslutöku til lögreglunnar var ég ítrekað spurð hvort ég hefði tekið eftir því hvort viðkomandi hefði verið með skegg. Svo skellti rannsóknarlögreglukonan því fram að annar maður hefði játað á sig verknaðinn. Hún hreytti þessu í mig. Ég fékk taugaáfall.
Ég vissi samt að ég bar ekki ábyrgð á því hvernig komið var. Gerandinn villti á sér heimildir, þóttist vera maðurinn sem ég kærði. En rannsóknarlögreglan sýndi mér ískalda fyrirlitningu og spurði mig hvort ég vissi hvað sá sem ég kærði hefði þurft að ganga í gegnum. Hvernig honum liði? Hún varpaði skömminni á mig. Hún sýndi aldrei þessar áhyggjur af minni líðan.“
Móðir konunnar gagnrýnir málsmeðferðartímann og tafir. Eftir að málið var upplýst var það sent til héraðssaksóknara. En þaðan var það sent aftur til lögreglu vegna þess að það átti eftir að yfirheyra tvö vitni. Það tók hins vegar fjóra mánuði og ber lögreglu við önnum vegna annarra mála. Sem fyrr segir var maðurinn dæmdur í fjögurra ára fangelsi en hann hefur áfrýjað þeirri niðurstöðu til Landsréttar. Málinu er því ekki lokið.