Svo virðist vera sem einhverjir þeirra kaupmanna sem nefndir voru í auglýsingu í Morgunblaðinu í morgun hafi ekki samþykkt að leggja nafn sitt við auglýsinguna.
DV greindi frá því í morgun að rekstaraðilar hefðu birt heilsíðuauglýsingu í blaðinu þar sem áform um að breyta Laugavegi í göngugötu allt árið um kring voru gagnrýnd harðlega. Voru borgaryfirvöld hvött til að endurskoða áformin og raunar fara í öfuga átt með því að afnema bílastæðagjöld og hverfa frá öllum götulokunum.
Jón Bjarni Steinsson, eigandi Dillon við Laugaveg, segir við Vísi að hann hafi aldrei samþykkt að leggja nafn staðarins við umrædda auglýsingu. „Ég er mjög ósáttur. Ég samþykkti þetta aldrei,“ segir hann og bætir við hann sé mjög fylgjandi því að Laugavegur verði gerður að göngugötu.
„Ég hef heyrt að þeir séu fleiri á þessum lista sem koma af fjöllum,“ segir hann við Vísi.