Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann fyrir að taka myndskeið yfir skilrúm milli búningsklefa karla og kvenna í sundlaug og íþróttamiðstöð á Vestfjörðum.
Maðurinn er ákærður fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum en fimm stúlknanna voru undir lögaldri. Þá voru þrjár konur yfir 18 ára og einn drengur undir lögaldri.
Fréttavefur mbl.is greinir frá þessu en málið var þingfest í Héraðsdómi Vestfjarða í morgun.
Maðurinn er sagður hafa notað símann sinn til að taka umrædd myndskeið og var fólkið nakið á myndunum. Stúlkurnar sem um ræðir voru 9 til 14 ára og drengurinn á fimmta aldursári. Maðurinn er að auki ákærður fyrir að hafa haft myndskeiðin í vörslu sinni.
Fórnarlömb mannsins fara fram á að hann greiði samtals 10,5 milljónir króna í miskabætur.