Tveimur flugvélum var lent á Keflavíkurflugvelli um og eftir helgina vegna veikinda farþega um borð. Báðir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar.
Í skeyti frá lögreglunni á Suðurnesjum kemur einnig fram að farþegi hafi slasast þegar hann var að ganga frá borði flugvélar sem hafði skömmu áður komið frá Hamborg í Þýskalandi.
„Viðkomandi farþegi féll til jarðar með þeim afleiðingum að hann hlaut stóran og djúpan skurð á hnakka. Hann kvartaði einnig undan eymslum víðsvegar um líkamann. Viðkomandi var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar.“