Guðmundur Brynjólfsson, rithöfundur og djákni, er á leið inn á Vog til að takast á við áfengisvandamál sem hann hefur glímt við um margra ára skeið. Frá þessu greinir hann í færslu á Facebook þar sem hann tilkynnir fylgjendum sínum að lítið muni heyrast frá honum á komandi misserum þar sem hann ætli nú loks að fara í fulla meðferð hjá SÁÁ.
„Alkóhólismi er skelfilegur sjúkdómur sem ég hef leynt og ljóst barist við í áratugi. Með misgóðum meðulum. Oftar en ekki með ágætum meðulum þó, en þá tekið þær remedíur af hálfum hug, eða algjöru hugleysi.“
Hann segir loks komið nóg af því að aðrir í lífi hans þurfi að gjalda fyrir sjúkdóm hans. „En nú er svo komið kæru vinir, þið sem sem fátt hafið vitað um þetta ástand, og svo þið hin sem hafið þjáðst óbærilega vegna drykkjusýki minnar, að nú er nóg komið; nóg bergt.“
„Ég hef nú í fyrsta sinn ákveðið að berjast við þennan óvin minn af heilum hug, þennan óvætt sem ég hef svo oft kallað yfir alla þá sem ég elska mest og fara í því skyni í fulla meðferð hjá SÁÁ, – meðferð sem hefst við innlögn á sjúkrahúsið Vog í fyrramálið. Og mun sú meðferð standa eins lengi og fólki á þeim bæ – síður en mér – þurfa þykir.“
Segir hann sjúkdóm sinn hafa bæði haft mikil áhrif á hann sjálfan sem og ástvini hans. Í reynd hafi hann líklega aldrei kunnað með áfengi að fara.
„Ég elska of marga og hef sært of marga af nákvæmlega þeim ástvinum til þess að geta heimilað alkóhólismanum að menga mitt fólk enn frekar í gegnum mig. Eitra mig og mína. Þeir smávægilegu áverkar sem ég hef veit sjálfum mér með vopnum Bakkusar eru djöfulleg tilræði við ósegjanlega margt fólk sem ég elska. Lygahvískur Bakkusar að mér hefur í gegnum tíðina reynst slælegar herferðir að sálarlífi þeirra sem ég ann mest og hafa þrátt fyrir allt haldið tryggið við mig og hafa reynst mér bestir ráðgjafar í lífinu.
Dans minn við vínguðinn hefur líklega aldrei verið annað en sverðdans manns sem aldrei kunni sverðdans og hefði þar á ofan aldrei átt að eiga magnaðra vopn en smjörhníf.“
Guðmundur segist greina frá þessu að fyrrabragði svo fólk furði sig ekki á þeirri þögn sem kemur til með að ríkja á Facebook svæði hans á næstunni.
Guðmundur hefur áður talað opinskátt um glímu sína við brennivínsdjöfulinn. Í helgarviðtali við DV á síðasta ári sagði hann að á tímabili hafi hann verið við það að gerast róni.
„Ég skildi um aldamótin og við tóku skelfilegustu ár lífs míns. Það var gegndarlaust fyllerí á mér í átta ár. Ég var hársbreidd frá því að vera róni. Ég á að baki svo margar brennivínsmeðferðir að ég er hættur að telja þær. Líf mitt var orðið tilgangslaust og ég var eins og Prins Póló-bréf sem fauk eftir götunum.“