Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Giovanni Vejerano Gonzaga, bandarískan ríkisborgara, í þriggja mánaða fangelsi vegna umferðarslyss á Reykjanesbraut í apríl 2018. Óskar Aðils Kemp slasaðist alvarlega þegar Gonzaga ók bifreið sinni á aðra bifreið sem kastaðist á Óskar.
Dómur féll í héraðsdómi í dag.
Slysið átti sér stað þann 28. apríl á Reykjanesbraut, til móts við Tjarnarvelli í Hafnarfirði. Þar hafði myndast umferðaröngþveiti vegna þess að fótbolti hafði skoppað út á götu. Óskar var þarna á ferðinni ásamt tveimur dætrum sínum. Óskar stöðvaði bíl sinn, gaf öðrum merki um að stöðva og fjarlægði boltann af götunni.
Næstur honum var maður að nafni Rúnar Jón Hermannsson. Skyndilega kom Gonzaga á miklum hraða og ók á bíl Rúnars sem við það hentist utan í Óskar. Bandaríski ferðamaðurinn og Rúnar Jón slösuðust lítillega en Óskar mun aldrei bera þess bætur sem hann lenti í þarna og um tíma var honum ekki hugað líf. Dætur hans sluppu ómeiddar.
Ítarlega var fjallað um málið í þættinum Kveikur á RÚV í apríl síðastliðnum.
Gonzaga var gefið að sök að hafa ekið bifreið sinni með of stuttu bili á milli ökutækja og án nægjanlegrar aðgæslu og varúðar aftan á bifreið Rúnars.
Gonzaga neitaði sök þegar málið var þingfest í maí síðastliðnum. Hann sagði við lögreglu eftir slysið hafa ekið á um 85 kílómetra hraða þegar bifreið fyrir framan hans hemlaði snögglega.
Í niðurstöðu dómsins kom fram að bifreið Gonzaga hafi verið á 91 til 101 kílómetra hraða þegar slysið varð. Í aðdraganda árekstursins beygði hann hvorki né hemlaði og var fótur hans á inngjafarpedala þar til árekstur varð, að því er segir í svokallaðri EDR-skýrslu sem unnin var. Draga mætti þá ályktun á ökumaðurinn hafi annað hvort verið sofandi við stýrið eða ekki með hugann við aksturinn þegar áreksturinn varð.
Í niðurstöðu dómsins segir:
„Ljóst þykir því að ákærði, sem ók litlum bíl í umrætt sinn, af gerðinni KIA RIO, næst á eftir hestakerrunni, gat tæpast séð nokkuð til umferðar eða aðstæðna að öðru leyti á veginum fyrir framan kerruna, enda sagði hann sjálfur að kerran hefði verið stór og byrgt honum sýn fyrir umferð um veginn. Við þær aðstæður bar ákærða að gæta sérstakrar aðgæslu og varúðar og gæta þess að hafa nægilegt bil á milli ökutækja þannig að hann gæti í tíma brugðist við aðstæðum eins og hér háttaði til. Að áliti dómsins, byggt á framburði þeirra vitna sem gáfu skýrslu fyrir dóminum, svo og þeim gögnum sem fyrir liggja, gætti ákærði þessa ekki og sýndi með því af sér gáleysi í skilningi 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er háttsemi hans rétt lýst í ákæru og eru brot hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi.“
Fangelsisdómurinn yfir Gonzaga er skilorðsbundinn til tveggja ára. Auk þess var hann sviptur ökuréttindum í tólf mánuði og gert að greiða allan sakarkostnað málsins, alls rúmar 1,8 milljónir króna.
Óskar slasaðist sem fyrr segir alvarlega í slysinu en í umfjöllun Kveiks var meðal annars rætt við eiginkonu Óskars, Indu Hrönn Björnsdóttur.
„Hann þekkti ekki börnin sín, hann þekkti okkur ekki, mundi ekki eftir yngstu dóttur sinni og sagði: Hvaða strákur er þetta?“,“ sagði Linda. Á þeim tíma sem leið frá slysinu þar til umfjöllunin um málið var í apríl hafði Óskari þó farið fram. „Þetta er Óskar, en þetta er ekki sá Óskar sem við þekktum, þetta er annar Óskar.“