fbpx
Þriðjudagur 22.júlí 2025
Fréttir

Fanndís Birna rannsakaði pólitískt grín á Íslandi: Getur grín haft áhrif á samfélagið?

Auður Ösp
Laugardaginn 14. september 2019 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við fengum miklu meiri viðbrögð í denn. En svo þegar samfélagsgerðin einhvern veginn breytist, kannski með farsímum og interneti og öllu slíku, og það einhvern veginn opnast fleiri rásir þá höfðum við minni slagkraft. Samfélagið verður ágengara, það verður harðara og óvægnara. Það verður einhvern veginn bara allt leyfilegt og þá er kannski aðeins minna gaman að lifa.“ Þetta segir Örn Árnason leikari og vísar þar í tíð Spaugstofuþáttanna á RÚV. Örn er einn af viðmælendum Fanndísar Birnu Logudóttur í tengslum við BA-ritgerð hennar í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Leitar Fanndís Birna þar svara við því hvernig pólitískt grín er gert fyrir heila þjóð og hvort það séu einhverjar reglur í gríni. Þá kannar hún áhrif grínsins á bæði einstaklinga og samfélagið sem heild. Spurningin er: Getur grín haft áhrif á samfélagið?

spaugstofan
Spaugstofan.

Í tengslum við rannsóknina tók Fanndís Birna viðtöl við  fimm landsþekkta grínista; Ara Eldjárn, Önnu Svövu Knútsdóttur og Eddu Björgvinsdóttur, sem öll hafa komið að gerð áramótaskaupsins, ásamt Karli Ágústi Úlfssyni og Erni Árnasyni sem voru meðlimir Spaugstofunnar á sínum tíma. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur meðal annars fram að grín þróast samhliða samfélaginu og að það sem er fyndið í dag var kannski engan veginn fyndið hér áður fyrr. Línan er sífellt að verða óljósari og grín að verða beittara.

Allir þeir grínistar sem rætt var við telja að Spaugstofan og áramótaskaupin veiti losun fyrir samfélagið. Hlutverk Spaugstofunnar og áramótaskaupsins var, og er enn, að taka fyrir málefni líðandi stundar og fjalla um þau á skoplegan hátt. Þar sem Spaugstofan hefur aftur á móti lokið göngu sinni hefur samfélagið nú aðeins áramótaskaupið einu sinni á ári til þess að takast á við hin ýmsu málefni. Örn lýsir því að fólk hafi sagt við hann, og aðra meðlimi Spaugstofunnar, eftir að þættirnir runnu sitt skeið, að það sakni þess að Spaugstofan taki mál fyrir.

Ari Eldjárn.

Grínið breyttist í kreppunni

Í niðurstöðum segir einnig að í kjölfar efnahagshrunsins hafi orðið breyting á því hvernig gríninu var beitt. Ari Eldjárn, sem var einn af handritshöfundunum skaupsins 2009, lýsir því að árið 2009 hafi verið mikil óvissa og hræðsla í samfélaginu. Margt átti sér stað það ár og það reyndist erfitt að koma öllu inn í áramótaskaupið, enda þurftu þau í raun að taka fyrir hrunið í heild sinni. Handritshópurinn fór þá leið að gera ekki lítið úr þjóðinni og hegðun hennar, eins og hafði verið í skaupunum árin áður. Í staðinn gerðu þau grín að þeim sem hrundu þessari atburðarás af stað.

Næstum ekkert er heilagt

En má gera grín að öllu? Flestir grínistanna eru sammála um að það væri í raun ekkert sem mætti ekki gera grín að heldur snerist það um að finna rétta leið til þess að gera grín að því. Þá telja þau nauðsynlegt að taka fyrir það sem á sér stað á líðandi stundu. Þá eru þau öll mjög sammála um að það megi og ætti jafnvel að gera grín að stjórnmálamönnum, enda mikið um það í bæði áramótaskaupum og Spaugstofunni.

Til að mynda lýsir Karl Ágúst því að Spaugstofuhópurinn hafi alltaf talið að þeir sem höfðu verið áberandi í fjölmiðlum „ættu það inni að það yrði gert grín að þeim, sama hvort þeir væru sammála þeim eða ekki.“ Þeir væru búnir að koma sér í þetta hlutverk og þar með væri komið ákveðið skotleyfi á þá. Þrátt fyrir að það geti virkað fjandsamlegt þá lýstu nokkrir viðmælendurnir því að þeir vildu líka að það væri gert grín að þeim, að með því að gert væri grín að þeim væru þeir komnir á einhvern ákveðinn stall.

Skaupið er orðið rammpólitískt

Fram kemur að þegar viðmælendur voru spurðir hvort að þeir teldu að áramótaskaupið og Spaugstofan væru pólitísk og hvort það hefði haft áhrif á samfélagið hafi svörin verið frekar misjöfn.

Þannig lýsir Örn því að Spaugstofan hafi þó alltaf verið ákveðin stjórnarandstaða og tekur Karl Ágúst undir það. Þá segir Karl Ágúst að þátturinn hafi þróaðist þó mjög mikið með samfélaginu og Karl minnist þess að þegar þeir fóru af stað hafi verið mun minna gagnsæi í samfélaginu og því lítið til að gagnrýna, menn vissu einfaldlega ekki betur.

Í niðurstöðunum kemur einnig fram að þegar áramótaskaupið hóf göngu sína árið 1966 hafi það ekki verið sérstaklega pólitískt. Í dag er óhætt að fullyrða að skaupið sé rammpólitískt.

„Ég held að allt sé pólitískt og ég held að það sé kannski frekar reynt að gæta að því að það sé ekki slagsíða á því. En ég held að það sé bara vitleysa að segja að það sé ópólitískt og þegar einhver segir: „Skaupið á ekki að vera pólitískt!“ Nú bíddu, á það þá bara, á það þá sem sagt ekki að taka fyrir neitt sem hefur haft einhverja pólitíska umræðu í kringum sig? … Ég held að fólk sé oft að rugla líka þegar það segir að það á ekki að vera pólitískt, ég held að það sé að rugla því saman við að þetta á ekki að vera flokkapólitískt,“ segir Ari Eldjárn.

Anna Svava tekur undir með Ara og telur að áramótaskaupið þurfi að vera pólitískt. Edda Björgvinsdóttir, sem hefur tekið þátt í fjölmörgum skaupum segist alltaf talið sitt grín vera pólitískt, en að það hafi vissulega tekið breytingum samhliða þróun samfélagsins.

Anna Svava Knútsdóttir.
Anna Svava Knútsdóttir.

Þá kemur fram að svör grínistanna hafi verið misjöfn þegar spurt var um áhrif grínsins á samfélagið. Aðeins Edda mundi eftir slíku dæmi, en það var eftir áramótaskaupið 1994 þegar þáverandi menntamálaráðherra, Ólafur G. Einarsson, var tekinn fyrir. Óvinsældir hans jukust margfalt í kjölfarið og seinna meir sagði hann af sér.

Karl Ágúst hefur vissar efasemdir en  ítrekar þó að á líðandi stund geti grín haft einhver áhrif á samfélagið með því að koma ákveðnum málum á dagskrá og vekja athygli á hegðun fólks sem mætti bæta. Grínið hefur einnig áhrif samfélagið með því að hjálpa einstaklingum að takast á við hlutina, en allir viðmælendurnir voru sammála um það.

„Sko, ég held að það hafi kannski haft einhver skammtímaáhrif. Það hefur kannski haft áhrif á hugsanlega álit fólks í einhvern tíma en ég held að, nei ekki þannig í þeim skilningi að það hafi breytt einhverju, breytt samfélaginu á einhvern hátt. Það held ég alls ekki. Og þótt við ættum þetta 30 ára tímabil og hefðum þá kannski, má kannski segja, ef einhver hefði átt að geta, ef að svona efni getur einhvern tímann breytt einhverju þá hefði það átt að vera okkar efni og þessi hópur. En það kannski bara sýnir okkur það að það er alveg sama hvað listamenn hamast og deila á samfélagið þá til lengri tíma litið þá sækir allt í sama horfið, það er að segja það endar alltaf með því að það er eins og við höfum aldrei verið hér.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Sakar stjórnarandstöðuna um rógburð og lygar í garð strandveiðisjómanna – „Setja upp hvolpaaugu og ljúga“

Sakar stjórnarandstöðuna um rógburð og lygar í garð strandveiðisjómanna – „Setja upp hvolpaaugu og ljúga“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Vopnað rán í Hlíðunum og skartgripaþjófnaður í miðbænum

Vopnað rán í Hlíðunum og skartgripaþjófnaður í miðbænum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tíðni ristilkrabbameins hjá ungu fólki eykst hratt – Þróunin vekur ugg hjá vísindamönnum

Tíðni ristilkrabbameins hjá ungu fólki eykst hratt – Þróunin vekur ugg hjá vísindamönnum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hve nánir voru Trump og Epstein?

Hve nánir voru Trump og Epstein?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Meira um smyglferð íslensks föður til Hollands – Tók gífurlega áhættu með soninn með sér

Meira um smyglferð íslensks föður til Hollands – Tók gífurlega áhættu með soninn með sér
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Einar kærði mann fyrir hatursorðræðu og er ósáttur við viðbrögð lögreglunnar – „Rífið þá á hol, mígið á þá og lík þeirra“

Einar kærði mann fyrir hatursorðræðu og er ósáttur við viðbrögð lögreglunnar – „Rífið þá á hol, mígið á þá og lík þeirra“