Skólastjóri Hlíðaskóla segir að eftirlit við skólann verði aukið eftir að tveir menn hafi reynt að tæla nemanda af lóð skólans. Vísir greinir frá þessu.
Í bréfi Kristrúnar Guðmundsdóttur skólastjóra til foreldra kemur fram að atvikið hafi átt sér stað í hádeginu fyrr í dag. Tveir menn hafi verið á sveimi nærri skólanum og hafi lögreglu verið tilkynnt um málið.
„Af lýsingu að dæma var annar um tvítugt og hinn um þrítugt. Sá yngri er dökkhærður og var klæddur í rauða hettupeysu en sá eldri skolhærður í skyrtu. Þeir höfðu afskipti af stúlku í unglingadeild og lögðu að henni að koma með sér,“ segir í tilkynningu hennar.