„Þið eigið einstaka menningu og hér er nýsköpun alls ráðandi. Það er kannski erfitt að koma á augu á það þegar maður býr hér, hvað þetta er eintök menning,“ segir Michele Roosevelt Edwards, nýr stjórnarformaður WOW air LLC sem hefur flug að nýju í október.
Aðspurð sagðist Michele ekki geta gefið upp hve stórt hlutfall starfsmanna WOW verið íslenskir en hún segist leggja mikið upp úr að íslensk áhrif verði áberandi í starfseminni. Hún segir að WOW hafi verið frábært flugfélag og mjög verði horft til þess sem rétt var gert í rekstri félagsins um leið og reynt verði að læra af mistökunum. Hún segir jafnframt:
„Endurvakinn flugrekstur WOW skiptir almenning á Íslandi og sömuleiðis í Bandaríkjunum miklu máli og mun efla bæði menningarleg og viðskiptaleg tengsl á milli Reykjavíkur og Washington. Við hyggjumst auka umsvifin í farþegafluginu með fleiri flugvélum áður en sumarið heilsar okkur. Frá fyrsta degi í vöruflutningunum, sem einnig munu hefjast á næstu vikum, munum við leggja mikinn metnað í vandaða þjónustu á sviði vöruflutninga með ferskt íslenskt sjávarfang á Bandaríkjamarkað.“
Nýja félagið verður skuldlaust og með traustan bakhjarl. Michele Edwards er stjórnarformaður USAerospace Associates LLC sem keypt hefur eignir WOW air úr þrotabúinu. USAerospace er bandarískt eignarhaldsfélag sem sérhæfir sig í fluggeiranum. Innan félagsins er víðfeðm þekking og umtalsverð reynsla í flugrekstri, viðhalds- og viðgerðarþjónustu, breytingum og endurnýjun innréttinga og búnaðar í flugvélum og sérhæfðri flugvélaverkfræðitengdri ráðgjöf til flugvélaframleiðenda um frumhönnun og framleiðsluþróun nýs tækjabúnaðar, starfsmannaráðningum o.fl. USAerospace tengist viðamiklu alþjóðlegu farþegaflugi auk vöruflutningaflugs bæði innanlands í Bandaríkjunum og á milli landa.