Allnokkir ökumenn voru staðnir að hraðakstri á Suðurlandsvegi, við Sandskeið, þegar lögreglan var þar við hraðamælingar í dag. Sá sem hraðast ók mældist á 151 km hraða en þar var um að ræða erlendan karlmann um fimmtugt sem var á ferðalagi með börnum sínum.
Maðurinn borgaði sektina, kr. 157.500, möglunarlaust og var í kjölfarið spurður út í það af hverju hann ók á þessum glórulausa ökuhraða. Hann taldi sig vera að aka á hraðbraut en á sumum stöðum í heiminum er enginn hámarkshraði á ákveðnum hraðbrautum.
Flestir hinna, sem lögreglan stöðvaði, óku þarna á 120-130 km hraða og var um helmingur þeirra erlendir ferðamenn en hinir íslenskir ökumenn.