Ísland er í 30. sæti af 140 löndum í ár yfir samkeppnishæfustu ferðamannastaðina í heiminum. Þetta er samkvæmt nýrri skýrslu World Economic Forum. Listinn birtist síðast árið 2017 en þá var Ísland í 25. sæti. Árið 2015 var Ísland aftur á móti í 18. sæti.
Fjölmörg atriði eru lögð til grundvallar þessum útreikningum; gæði samgangna, þjónustustig, menningarleg afþreying, verðlag og löggæsla svo eitthvað sé nefnt. Það sem dregur Ísland helst niður er hátt verðlag en á sama tíma er Ísland eitt öruggasta landið til að heimsækja.
Ísland er í 138.-139. sæti af 140 löndum þegar kemur að verðlagi en samkvæmt niðurstöðu World Economic Forum er aðeins Bretland dýrari en Ísland og Sviss sem deila sætum.
Spánn er í efsta sæti listans en þetta er í þriðja sinn í röð sem þetta mikla ferðamannaland er í efsta sæti. Þar á eftir koma Frakkland, Þýskaland, Japan, Bandaríkin, Bretland, Ástralía, Ítalía, Kanada og Sviss. Hástökkvararnir á listanum voru Indland, sem fór úr 40. sæti upp í 34. sæti, Egyptaland, sem fór úr 74. sæti í 65. sæti og Serbía sem fór úr 95. sæti í 83. sæti.