
Steingrímur Sævarr Ólafsson almannatengill hrinti einu sinni Bandaríkjaforseta með því að setja í hann öxlina. Ástæðan fyrir uppátækinu var sú að Steingrím skorti svigrúm til ljósmyndunar er hann var að mynda þáverandi kanslara Þýskalands, Gerard Schröder. Bandaríkjaforsetinn sem Steingrímur hrinti var George W. Bush.
Atvikið átti sér stað árið 2005, á 60 ára stríðslokaafmæli Evrópu sem haldið var í Rússlandi. Steingrímur á að baki langan feril sem blaðamaður, upplýsingafulltrúi og almannatengill. Á þessum tíma starfaði hann sem upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins.
Að lokinni athöfn á Rauða torginu var boðið til kokteilboðs í lokuðum sal í Kreml. Þar var Steingrímur með myndavél og tók nokkrar myndir sem varð til þess að Þýskalandskanslari taldi hann vera atvinnuljósmyndara á svæðinu og bað hann um að mynda sig með öðrum manni. Töluverð þrengsli urðu þá og gekk Steingrími illa að skapa sér pláss til myndatökunnar allt þar til hann rak öxlina í nærliggjandi mann. En sá maður reyndist vera Bandaríkjaforseti sem féll við þetta í gólfið.
Sem betur fer sáu lífverðir forsetans þetta ekki en skemmtileg frásögn Steingríms af atvikinu og viðbrögðum Bandaríkjaforseta, sem hann birtir á Facebook, er eftir farandi:
Í tilefni af komu varaforseta Bandaríkjanna er rétt að rifja upp þegar ég hrinti sjálfum forseta Bandaríkjanna – og það í Rússlandi – og komst upp með það.
Hverfum þá aftur til ársins 2005, en þá var 60 ára stríðslokaafmæli í Evrópu fagnað með viðhöfn í Moskvu. Á þeim tíma var ég að vinna í forsætisráðuneytinu sem upplýsingafulltrúi ráðuneytisins og fór með forsætisráðherra Íslands til Moskvu til að vera viðstaddur þessa hátíðarathöfn.
Á múrum Kremlar horfði maður á stríðstólin streyma framhjá á Rauða torginu meðan maður horfði á hvern þjóðhöfðingjann á fætur öðrum setjast og standa eftir því sem stemmningin bauð. Flest allir voru þeir einhverjir sem maður hafði fjallað um í fréttum áður eða lesið um – og fannst því eins og maður þekkti þá.
Að athöfn á Rauða torginu lokið, var boðið til kokteilboðs í lokuðum sal í Kreml. Hver þjóðhöfðingi eða ráðamaður gat tekið einn með sér og því þurftu þeir flestir að skilja lífverðina sína eftir og fara inn í salinn með ráðgjöfum eða mökum. Ég fylgdi ráðherranum íslenska, enda vorum við bara tveir frá Íslandi og hafði með mér litla myndavél.
Ég sá Gerard Schröder, kanslara Þýskalands og smellti mynd af honum að spjalla við forsætisráðherra Íslands, svo kom Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs – og ég smellti mynd. Því næst japanski forsætisráðherrann, svo Jacques Chirac forseti Frakklands og enn reif ég upp myndavélina. Svo var þetta orðið hálf leiðingjarnt eftir að ég myndaði Pútín og ráðherrann, svo ég hætti að taka myndir. Fékk mér kampavín og „minglaði“.
Snéri mér svo við til að athuga hvort ekki væri í lagi með íslenska forsætisráðherrann, en þá sá ég að Schröder bandaði til mín og bað mig um að taka mynd af sér og einhverjum…sem ég hef ekki hugmynd hver var. Gott og vel, hann hélt augljóslega að ég væri ljósmyndari fyrir kokteilboðið, ég nennti ekkert að leiðrétta það.
Ég reyndi í þvögunni að munda myndavélina og ná góðri mynd af þeim félögum, en ég var einfaldlega of nálægt þeim til að ná þeim báðum í rammann og reyndi að biðja þá um að bakka. Þeir gátu það ekki, svo ég reyndi að bakka. En ég gat það heldur ekki, það voru einfaldlega einhverjir sem voru alveg upp við mig.
Hvað gerir Íslendingurinn þá? Hann einfaldlega setur öxlina í þann sem er fyrir aftan mann. Gamalt trikk úr biðröðinni í Hollywood og á Borginni í den. Og það virkaði jafnvel í Moskvu og í miðbænum. Ég fékk pláss og tók myndina.
Snéri mér svo við og áttaði mig þá á að ég hafði hrint George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, til að taka ljósmyndina. Sá stóð og horfði á mig með slíkum undrunarsvip að ég hef aldrei séð annað eins.
Ég vissi ekki hvað ég átti að gera í stöðunni, svo ég spilaði mig svalan, kinkaði bara kolli til hans eins og ekkert væri og lét mig hverfa. Fann fljótlega ráðherrann „minn“ og reyndi að láta lítið fara fyrir mér.
Nema hvað…hver gekk þá þar hjá og forsætisráðherra ákvað að spjalla við? Jú, Bush. Þarna stóðu þeir og Bush horfði á mig með svipnum sem sagði „Égveitekkihverþúerteneflífverðirnirmínirhefðuveriðmeðværirðudauður“.
OK…hrinti forseta Bandaríkjanna -í Rússlandi – og komst upp með það.