
Umfangsmikið þjófnaðarmál í byggingarvöruversluninni Bauhaus hefur verið sent aftur til áframhaldandi rannsóknar hjá lögreglu en málið var komið til ákærusviðs lögreglunnar og búist var við ákæru. Rannsókn hefur staðið lengi yfir og nær aftur til haustsins 2018. Starfsmaður í versluninni er grunaður um að hafa stolið yfir langt tímabil vörum fyrir tugi milljóna króna. Vörurnar hafa verið notaðar við byggingarverkefni í Vestmannaeyjum og hugsanlega víðar á landinu og er því starfsmaðurinn talinn eiga sér samverkamann eða samverkamenn utan verslunarinnar. Við rannsókn málsins í vetur var mikið magn af vörum frá Bauhaus flutt frá Herjólfi frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur.
Fjölmiðlar hafa leitað stíft eftir upplýsingum hjá lögreglu um rannsókn málsins en mjög lítið hefur verið um svör. Eftir að málið var sent til ákærusviðs lögreglunnar í sumar leitaði DV eftir svara hjá ákærusviðinu um hvenær kæra væri væntanlegt, en fékk þá engin svör.
Núna hafa svör borist við nýrri fyrirspurn DV frá Maríu Káradóttur, verkefnisstjóra hjá ákærusviði. Svar hennar er eftirfarandi:
„Eftir yfirferð málsins á ákærusviði var það sent til frekari rannsóknar á lögreglustöð. Rannsókn er því ólokið og ekki hægt að segja til um það á þessu stigi hvenær eða hvort ákæra verði gefin út í málinu.“