Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor birti í dag áhugaverða færslu á Facebook-síðu sinni. Þar bendir hann á að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands hafi borið áhugavert armband á fund sinn með varaforseta Bandaríkjanna Mike Pence, líkt og hann gerði á fundi sínum með rússlandsforseta Pútín.
„Takið eftir regnbogaarmbandinu sem forseti Íslands ber. Það er því miður eitthvað mikið að í vinaríki okkar, Bandaríkjunum, þegar það þarf á sömu hvatningu að halda og stjórnvöld í Rússlandi til að virða grundvallarmannréttindi þegna sinna.“
Baldur hrósar Guðna fyrir uppátækið og segir það einstaklega uppörvandi. En hann biður fólk að dreifa boðskapnum um heiminn.
„Vel gert Guðni Th Jóhannesson. Það er einstaklega uppörvandi að fylgjast með samstöðu þjóðarinnar með réttindabaráttu samkynhneigðra og annarra hinsegin hópa í dag. Dreifum þessari mynd með sinn mikilvæga og góða boðskap um heiminn.“
Uppfært
Armbandið sem Guðni ber er til styrktar Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk með krabbamein, en ekki til stuðnings hinsegin fólks.