fbpx
Sunnudagur 27.júlí 2025
Fréttir

Helgi Hrafn svarar Gísla fullum hálsi: „Við erum ekki að búa til neina aumingja“

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 4. september 2019 12:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hver einasta eldri kynslóð telur ungu kynslóðina vera lata og duglausa aumingja og hver einasta kynslóð hefur rangt fyrir sér. Við erum ekki að búa til neina aumingja og nútíma uppeldisaðferðir eru á allan hátt betri en þær sem viðgengust áður fyrr, enda oftar byggðar á vísindalegri aðferð frekar en sjálfsdýrkun og hörkutólaþvaðri.“

Þetta segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, í pistli á Facebook-síðu sinni. DV fjallaði í morgun um pistil Gísla Páls Pálssonar, forstjóra og margra barna föður, í Morgunblaðinu í dag. Óhætt er að segja að greinin hafi vakið talsverða athygli en í henni talar hann um uppeldisaðferðir dagsins í dag.

„Hættum að búa til aumingja“

„Börn verða ekki fullorðin nema að fá að takast á við lífið, gera mistök og greiða úr þeim, standa á eigin fótum,“ sagði Gísli og bætti við síðar: „Hættum að búa til aumingja, leyfum börnunum að takast á við lífið, verða fullorðnir og ábyrgir einstaklingar. Annars verður enginn með viti til að taka við af okkur þegar við setjumst í helgan stein.“

Helgi Hrafn er ósammála Gísla og segir þetta raunar gamalkunnugt stef.

„Eldri kynslóðin sem fannst bókalestur og menntun vera eintóm leti og snobberí fannst sú yngri líka alveg glötuð á þeim tíma. Eldri kynslóðin sem fékk ekki sjónvarp inn á heimilið fyrr en um sextugsaldurinn fannst líka unga kynslóðin þá ekkert gera nema glápa á sjónvarp. Það var rangt þá, og er rangt núna,“ segir Helgi.

Fáfræði og frumstæð siðferðisvitund

Hann segir það almennt ekki vera góða hugmynd að stilla sinni eigin kynslóð upp gegn þeirri sem kemur á eftir.

„Sú sem kemur á eftir þarf iðulega að laga einhver fullkomlega skelfileg vandamál sem sú eldri skilur eftir sig, oftast vegna samblöndu af fáfræði og frumstæðari siðferðisvitundar. Hvort tveggja almenn þekking um lífið og tilveruna, sem og beisik siðferðisvitund (eins og að berja ekki börnin sín og keðjureykja ekki ofan í þau, í langferð á litlum bíl með lokaða glugga), eru ólýsanlega mikið betri núna en þau hafa nokkurn tíma verið fyrr. Sennilega er reyndar fátt sem hefur batnað jafn mikið og uppeldisaðferðir síðustu örfáa áratugina. Þar áður voru uppeldisaðferðir bara samansafn af handahófskenndum getgátum út í bláinn, fyrst og fremst byggðar á hefðum frekar en rökréttri hugsun.“

Í grein sinni tiltók Gísli óljóst dæmi frá Bandaríkjunum þar sem hann sagði foreldra ganga svo langt að hafa samskipti við framhaldsskóla eða háskóla barnanna – jafnvel þó börnin væru sjálf komin á þrítugsaldur. Þeir kæri jafnvel prófniðurstöður séu þær börnunum ekki þóknanlegar.

Vandræðalegt að vísa í slúður

„Vísan í eitthvað slúður frá Bandaríkjunum er síðan beinlínis vandræðalegt. Bandaríkin eru 350 milljón manns með hundruði ef ekki þúsunda mismunandi menningarsvæða. Í alvöru, það þarf virkilega að hugsa nákvæmlega ekki neitt til að segja svona lagað. Eins og ef ekkert foreldri á Íslandi hafi nokkurn tíma tekið asnalegan slag við skólayfirvöld. Kommon.“

Helgi segir að unga kynslóðin í dag sé sú frábærasta sem hingað til hefur lifað og allar líkur séu á að sú sem á eftir komi verði enn frábærari.

„Báðar munu þurfa að þola, og laga, vandamál sem eldri kynslóðin skildi eftir sig, sér í lagi loftslagsbreytingar; vandamál sem er búið að benda á áratugum saman en sinnuleysi og, einmitt, vitsmunaleg leti eldri kynslóðarinnar hefur fyrirbyggt að verði stöðvað í tæka tíð.“

Eldri kynslóðin tapar slagnum

Helgi gerir þó ekki lítið úr eldri kynslóðinni sem hann segir frábæra á sinn hátt, eins og sú sem kom á undan.

„En ég mæli eindregið gegn því að nokkur eldri kynslóð taki slaginn við þá yngri um hver sé meira með á nótunum. Hver einasta eldri kynslóð tapar þeim slag, nú sem fyrr. Við erum að þróast fram á við og læra meira, en ekki öfugt. Nákvæmlega ekkert við uppeldisaðferðir var betra í gamla daga. Ekki neitt á neinn hátt. Fortíðin var glötuð og heimurinn er að batna hratt og mikið á næstum því allan hátt. Eina hættan er sú að eldri kynslóðin sé nú þegar búin að eyðileggja plánetuna fyrir þeirri yngri. Sorrí með mig en einhver þurfti bara að segja þetta upphátt. Vinsamlegast minnið mig á þetta ef ég byrja að röfla yfir ungu kynslóðinni eftir 10-20 ár.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Rýnt í grein varaþingmanns um meintan feluleik – Hálfsannleikur, talnaleikir og fullyrðingar sem halda engu vatni

Rýnt í grein varaþingmanns um meintan feluleik – Hálfsannleikur, talnaleikir og fullyrðingar sem halda engu vatni
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Slanga í flugvél – „Ég hafði eitt tækifæri til þess að grípa hana“

Slanga í flugvél – „Ég hafði eitt tækifæri til þess að grípa hana“
Fréttir
Í gær

Hátt verð fyrir hótelgistingu á Suðausturlandi vekur reiði – „Þetta er orðin ógeðsleg menning“

Hátt verð fyrir hótelgistingu á Suðausturlandi vekur reiði – „Þetta er orðin ógeðsleg menning“
Fréttir
Í gær

Kvartaði undan erlendum ferðamönnum á tjaldsvæðum og fékk hvasst svar – „Að lesa þetta er kostulegt“

Kvartaði undan erlendum ferðamönnum á tjaldsvæðum og fékk hvasst svar – „Að lesa þetta er kostulegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dóra og Einar tókust hart á – „Það þurfti að sprengja meirihlutann til að gera það“

Dóra og Einar tókust hart á – „Það þurfti að sprengja meirihlutann til að gera það“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Okur í íslensku bakaríi – „Bon apetit bankareikningurinn minn“

Okur í íslensku bakaríi – „Bon apetit bankareikningurinn minn“