„Ég er hræddur um að hann ráðist á mig ef ég reyni að fara. Þó að fleiri séu á svæðinu þá er ég ekki viss um að það myndi stöðva hann.“ Svona hljómuðu smáskilaboð sem 21 árs Bandaríkjamaður, Zach að nafni, sendi föður sínum þegar hann var staddur hér á landi í sumar.
Óhætt er að segja að Zach hafi lent í óhugnanlegri reynslu þegar hann heimsótti Ísland í sumar í þeim tilgangi að ganga einn um landið.
Dan Casey, faðir Zachs, skrifar um upplifun sonar síns í pistli á vef Roanoke Times í Virginíu í Bandaríkjunum. Hann segir að haustið 2018 hafi Zach tekið sér frí frá skóla og fengið vinnu á kaffihúsi í Roanoke. Tilgangurinn var að spara fyrir ferðalagi til Íslands þar sem markmiðið var að ganga um landið í tvær vikur.
„Þó að Zach hafi haft talsverða reynslu sem bakpokaferðalangur þótti mér áætlun hans full metnaðarfull. Mestar áhyggjur hafði ég af því að hann ætlaði að ganga einn. Áður en hann fór lagði ég til að hann myndi freista þess að slást í för með öðrum ferðamönnum í svipuðum hugleiðingum, í stað þess að fara einn,“ segir Dan.
Dan segir að Zach hafi fundið einn bakpokaferðalang, Bandaríkjamann á besta aldri, á hosteli í Reykjavík. Sá ætlaði einnig að ganga um landið og ákváðu þeir að gera það í sameiningu. „Þann 5. júní – á miðvikudegi – sendi Zach konunni minni, Donnu, skilaboð þess efnis að hann myndi ekki leggja einn af stað. Ferðafélagi hans var Bandaríkjamaður, rétt rúmlega þrítugur, sem hafði gegnt herþjónustu í bandaríska hernum.“
Dan kallar manninn Norman í greininni en tekur fram að það sé ekki hans rétta nafn. Norman sagði Zach að hann væri atvinnuljósmyndari. Í skilaboðunum sem Zach sendi Donnu stóð: „Segðu pabba að ég hafi hitt annan Bandaríkjamann og fari í gönguna með honum. Honum mun líða betur að heyra það.“
Dan segir að honum hafi vissulega liðið aðeins betur, eða allt þar til hann komst að því hvert rétta nafn Normans var. „Athugið að þremur vikum áður höfðum við fengið skelfilegar fréttir af hnífstunguárásum á Appalachian-gönguleiðinni,“ segir hann en um var að ræða mann sem var vopnaður sveðju og réðst að tveimur göngumönnum með þeim afleiðingum að annar þeirra lést.
„Ég sendi Zach skilaboð og bað hann um að segja mér meira um Norman – fullt nafn, upplýsingar um hvernig væri hægt að ná í hann og svo framvegis. Zach sendi mér slóðina á ljósmyndasíðuna hans og nafnið á fyrirtæki hans sem var með aðsetur í suðurríkjum Bandaríkjanna. Ég kíkti á ljósmyndasíðuna þar sem finna mátti aðeins þrettán ljósmyndir. Ég fletti upp nafninu hans á vef dómstólanna og komst að því að hann hafði komist í kast við lögin fyrir ósæmilega hegðun á almannafæri (e. Disorderly conduct). Ég fann andlitsmynd af honum frá lögreglunni sem ég sendi Zach og spurði hvort um sama mann væri að ræða. Hann staðfesti það og tjáði mér að Norman hefði sjálfur talað um að hafa komist í kast við lögin fyrir smávægilegar sakir.“
Dan vitnar í orð Zach sem sagði að Norman hefði verið í hernum í sex ár og einnig verið í frönsku útlendingahersveitinni í eitt ár. Svo hafði Norman verið í nokkur ár í svissnesku Ölpunum og suðaustur Asíu. Sagði Zach að honum liði vel í kringum hann og upplifði ákveðið öryggi.
Dan viðurkennir að hann hafi haft ónotatilfinningu en ákveðið að krossleggja fingur og vona það besta. „Föstudagskvöldið 7. júní höfðu þeir þegar verið tvær nætur saman. Þeir voru komnir á tjaldsvæðið í Básum í Þórsmörk og þegar þarna var komið við sögu var klukkan 10.30 hjá okkur en 02.30 á Íslandi. Ég og Donna vorum sofandi þegar síminn byrjaði skyndilega að hringja.“
Í símanum var dóttir þeirra, Anna, en Zach hafði sent henni býsna óhugnanleg skilaboð umrætt kvöld. „Anna var í hálfgerðu móðursýkiskasti og var augljóslega hrædd. Zach hafði sent okkur skilaboð og óskað eftir aðstoð meðan ég og Donna vorum sofandi. Hér er eitt þeirra sem hann sendi mér einnig í tölvupósti.
„[Norman] er ekki sá sem hann segist vera og er mjög vanstilltur einstaklingur. Ég komst að því að hann þjáist af áfallastreituröskun og hefur sýnt mjög óhugnanlegar skapsveiflur. Hann hefur hótað því að valda öðrum á tjaldsvæðinu skaða af engri ástæðu. Hann er mjög ofsóknaróður og sakar mig um að gera grín að sér eins og aðrir í lífi hans í gegnum tíðina. Hann hefur hraunað yfir mig fyrir frjálslyndar skoðanir mínar en sjálfur segist hann vera fasisti. Þetta hefur hann sagt meðan hann hefur haldið á hníf sem hann brýnir í sífellu. Hann reyndi að fá mig í göngutúr fyrir fimmtán mínútum, meðan hann hélt á hnífnum, en ég neitaði. Ég er í tjaldinu mínu en ég held að hann sé fyrir utan tjaldið núna og bíði eftir mér, ég er ekki viss. Ég er hræddur um að hann ráðist á mig ef ég reyni að fara. Þó að fleiri séu á svæðinu þá er ég ekki viss um að það myndi stöðva hann. Hann er miklu sterkari en ég og er auk þess þjálfaður í bardagaíþróttum. Ertu til í að hringja á lögregluna og segja henni að ég sé á tjaldsvæðinu í Básum.“
Dan var eðlilega brugðið þegar hann heyrði af þessu enda var Zach augljóslega mjög hræddur um öryggi sitt. Dan segist hafa fundið númer hjá lögreglunni hér á landi en brösuglega hafi gengið að finna landsnúmerið og slá númerið rétt inn. Hann hringdi því í bandarísku neyðarlínuna sem gaf honum símanúmerið hjá sendiráði Íslands í Washington. Þar sem skrifstofan var lokuð brá Dan á það ráð að hringja aftur í bandarísku neyðarlínuna en þar fékk hann þau skilaboð að ekki væri hægt að tengja hann við lögregluna hér á landi.
„Þannig að ég hringdi í vin minn, Joe Campbell, og bað hann um að hringja í lögregluna á Íslandi. Hann gerði það og lét lögreglu í té símanúmerið mitt og útskýringar á erindinu. Svo fór að kærasta Joe, Julie Janoff, náði í gegn og útskýrði, ranglega að vísu, að Norman væri vopnaður skotvopni,“ segir hann í greininni.
Dan segir að nokkrum mínútum síðar hafi íslenskur lögreglumaður hringt. „Hann sagði mér að þeir hefðu fengið afrit af skilaboðunum frá Zach og lögreglan væri á leið í Bása.“
Til að gera langa sögu stutta fékk Donna skilaboð frá Zach skömmu síðar þess efnis að hann væri í öruggum höndum. Lögregla hefði komið, handtekið Norman og rætt við hann. Honum hafi síðar verið sleppt án eftirmála. „Það þarf ekki að taka fram að hvorki ég né Donna náðum miklum svefni þessa nótt. Dóttir okkar, Anna, komst síðar að því að bæði móðir Normans og systir hans höfðu fengið nálgunarbann á hann. Í nálgunarbannskröfunni kom fram að hann ætti við andleg veikindi að stríða og hefði ítrekað neitað því að fá aðstoð. Þá hefði hann verið rekinn úr hernum vegna slagsmála.“
Dan segir að þó að Zach hafi upplifað slæma tíma á Íslandi hafi hann einnig upplifað stórkostlega tíma. Fjórum dögum eftir þetta atvik sem lýst er hér að framan kom hann aftur til Reykjavíkur og hitti þar bandaríska stúlku frá Minnesota sem hann er í sambandi með. Hún stundar nám við University of California í Berkeley en sjálfur er Zach kominn aftur í nám við James Madison University. Zach segir hins vegar að Norman sé enn á Íslandi, ef marka má Facebook-síðuna hans.