fbpx
Fimmtudagur 10.júlí 2025
Fréttir

Neytendur sitja eftir með sárt enni eftir viðskipti við íslenska vefverslun: „Ég vil fá peninginn minn til baka“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 1. september 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég var búin að borga og ryksugan var alltaf á leiðinni. Nú er búið að loka öllu hjá þeim og netfangið einnig óvirkt. Ég er að pæla í að kæra. Ég vil fá peninginn minn til baka,“ segir kona, sem kýs að njóta nafnleyndar, í samtali við DV um viðskipti sín við fyrirtækið Renmax. Fyrirtækið hóf starfsemi í fyrra og seldi ryksuguróbóta á hagstæðara verði en gerist og gengur. Var fyrirtækið með heimasíðu og virka Facebook-síðu. Jafnframt var fyrirtækið skráð með skrifstofu við Suðurlandsbraut í Reykjavík, með skrifstofutíma frá 8 til 20 og símanúmer í símaskrá. Fyrirtækið afgreiddi eitthvert magn af ryksuguróbótum og viðskiptavinir virtust almennt ánægðir með vöruna.

Ryksugan Hér er fræga ryksugan. Mynd: Skjáskot/Facebook

Öllum samskiptaleiðum lokað

Um mitt sumar fóru hins vegar grunsemdir viðskiptavina Renmax að vakna þegar sendingar af ryksuguróbótum, sem búið var að greiða fyrir, komu ekki til landsins. Þeir viðskiptavinir sem DV hefur rætt við segja að þær upplýsingar hafi borist frá Renmax að sending væri væntanleg í júlí, en sú sending kom aldrei. Svo fór að fyrirtækið hætti að svara skilaboðum þeirra viðskiptavina sem DV talaði við og í byrjun ágúst var líkt og heimasíðunni hefði verið lokað og netfangið gert óvirkt. Nokkrum dögum síðar, eða um eða eftir miðjan ágúst, kom heimasíðan aftur í loftið með þeim skilaboðum að vefsíðan lægi niðri og hægt væri að hafa samband við fyrirtækið í gegnum netfangið renmax@renmax.is. Þann póst fengu viðskiptavinir hins vegar í hausinn. Nú fyrir nokkrum dögum var síðan búið að taka niður Facebook-síðu fyrirtækisins og fjarlægja símanúmerið úr símaskrá. Tveimur dögum áður en DV fór í prentun var búið að breyta skilaboðum á heimasíðu fyrirtækisins á þá leið að fyrirtækið væri hætt rekstri. Þá voru viðskiptavinir Renmax, sem DV talaði við, ekki búnir að heyra frá fyrirtækinu síðan um mitt sumar og ekki höfðu ekki verið upplýstir um rekstrarstöðvunina.
„Af óviðráðanlegum ástæðum getur Renmax ekki haldið áfram rekstri á Íslandi. Þetta er búið að vera einstakt ferðalag og við þökkum viðskiptavinum okkar fyrir viðskiptin og einstaka velvild frá upphafi. Takk fyrir okkur,“ stendur nú á heimasíðunni.

Gekk ekkert Um mánaðarmótin júlí/ágúst fóru viðskiptavinir að láta í sér heyra á Facebook án árangurs. Mynd: Skjáskot/Facebook

Varar við svindli í netverslunum

Þrjú mál á borði samtakanna Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir í samtali við DV að þrjú mál tengd Renmax séu nú á borði samtakanna í skoðun. Hann segir þá neytendur sem hafa greitt fyrir vöru hjá Renmax með greiðslukorti eða Netgíró geta haft samband við sína greiðslumiðlun og fengið endurgreitt. Hins vegar missa gjafakort gildi sitt við greiðslustöðvun.

„Þeir sem hafa greitt með reiðufé eða eiga gjafakort sitja eftir með sárt ennið,“ segir Breki.

Breki segist ekki vita hvort Renmax hafi stundað ólöglega viðskiptahætti eða einhvers konar svindl á netinu, en hvetur neytendur til að vara sig á netverslunum þar sem erlendar svindlverslanir skjóti reglulega upp kollinum.

„Því miður er mikið um netsvindl. Þá eru settir upp eins konar frontar og fólk platað til að kaupa vöru á lægra verði en býðst annars staðar. Þannig eru hafðir fjármunir af grandalausum. Það er eitthvað sem fólk þarf að varast mjög á netinu. Neytendur þurfa að passa að versla bara við viðurkennda aðila og kanna hvort viðkomandi verslun sé ný af nálinni. Það eru síður á netinu, eins og Trustpilot, þar sem hægt er að ganga úr skugga um hvort aðrir hafi lent í veseni með viðkomandi verslun,“ segir Breki og heldur áfram. „Ég hef ekki heyrt um íslenskar svindlsíður á netinu en það mjög alvarlegt ef slíkt kemur til Íslands því fólk hefur aukið traust á því sem það þekkir.“

Lækkað verð Renmax auglýsti ryksuguróbót á betra verði en gengur og gerist. Mynd: Skjáskot

Áminntur af Neytendastofu

Fyrirtækið sem heldur utan um reksturinn á Renmax er Nordecom ehf. Það var stofnað í júní í fyrra og er í eigu Tryggva Gunnarssonar, sem er tvítugur, og Jóhanns Bjarna Péturssonar, sem er 24 ára. Jóhann Bjarni situr í stjórn Nordecom ehf. og er einnig skráður prókúruhafi. Þá er hann einnig stofnandi tveggja annarra fyrirtækja; heildverslunarinnar Sölubrúar ehf. og framleiðslufyrirtækisins Árheims ehf. Hann situr einnig í stjórn JST ehf., sem samkvæmt fyrirtækjaskrá stundar smásölu á netinu. Tryggvi er prókúruhafi í síðastnefnda fyrirtækinu og situr einnig í stjórn þess. Þá er Tryggvi einnig í stjórn og skráður prókúruhafi hjá fyrirtækinu Stratton ehf. Það fyrirtæki hélt utan um vefsíðuna gamatilbod.is sem er ekki lengur virk. Neytendastofa áminnti Stratton ehf. í fyrra fyrir að auglýsa lækkað verð á vörum án þess að hafa sýnt fram á verðlækkun. Var fyrirtækinu bannað að viðhafa þessa viðskiptahætti. Nokkrum vikum áður en Neytendastofa birti úrskurðinn voru miklar umræður á Bland þar sem varað var við viðskiptum við gamatilbod.is þar sem um væri að ræða ódýrar vörur af Ali Express sem seldar voru á uppsprengdu verði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Greiddi 18.159 kr. fyrir 2 klst. á bílastæði á Selfossi – „Ef rétt þá er þetta lögreglumál“

Greiddi 18.159 kr. fyrir 2 klst. á bílastæði á Selfossi – „Ef rétt þá er þetta lögreglumál“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Sögðu trúnaðarupplýsingar liggja á glámbekk í ráðuneyti – Kröfðust upplýsinga um glæra plastvasa, skápa og lykla

Sögðu trúnaðarupplýsingar liggja á glámbekk í ráðuneyti – Kröfðust upplýsinga um glæra plastvasa, skápa og lykla
Fréttir
Í gær

Sjálfsvíg ráðherrans „nánast einsdæmi í rússneskri stjórnmálasögu“

Sjálfsvíg ráðherrans „nánast einsdæmi í rússneskri stjórnmálasögu“
Fréttir
Í gær

Ferðaðist um hálfan hnöttinn til að vera viðstaddur útskrift barnabarns – Daginn eftir hvarf hann sporlaust

Ferðaðist um hálfan hnöttinn til að vera viðstaddur útskrift barnabarns – Daginn eftir hvarf hann sporlaust
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stjórnarandstaðan slær Íslandsmet í málþófi

Stjórnarandstaðan slær Íslandsmet í málþófi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurður ber Auðunn saman við Jesú Krist og segir áhrif hans ekki leyna sér – „Árið er 45 E.AB“

Sigurður ber Auðunn saman við Jesú Krist og segir áhrif hans ekki leyna sér – „Árið er 45 E.AB“