„Hann var rosalega sjarmerandi. Hann vissi nákvæmlega hvað hann ætti að segja. Hann gat lesið mig fullkomlega og vissi alveg hvaða takka hann átti að ýta á,“ segir íslensk kona á fertugsaldri sem staðið hefur í forræðisdeilu, vegna barna sinna tveggja, við bandarískan barnsföður. Konan vill njóta nafnleyndar sökum þess að málið er enn í meðferð bandarískra dómstóla, því köllum við hana Önnu héðan í frá.
Anna kynntist barnsföður sínum stuttu áður en hún varð tvítug. Þá var maðurinn fertugur og búinn að búa á Íslandi í tíu ár. Þau kynntust á síðunni Sparks, sem í þá daga var dægurmálavefsíða sem bauð upp á spjallmöguleika. Maðurinn hafði samband við Önnu í gegnum síðuna því hann þurfti að tala við íslenska konu því hann væri að skrifa skáldsögu um íslenska konu og hann væri bandarískur karlmaður. Sagðist hann vanta innsýn í líf venjulegrar konu á Íslandi.
„Það sem ég vissi ekki var að á þessum tíma var nýbúið að dæma hann fyrir vörslu á barnaklámi,“ segir Anna, en maðurinn var dæmdur í níutíu daga fangelsi árið 2005, nokkrum mánuðum áður en hann og Anna kynntust. Í tölvu hans fundust 349 ljósmyndir og sautján stuttar hreyfimyndir sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. DV er með dóminn undir höndum. Anna segir að sambandið hafi þróast mjög hratt eftir fyrstu kynni þeirra í raunheimi.
„Hann var fljótur að láta til skarar skríða. Hann kyssti mig fyrst þegar við hittumst. Ég vissi ekki alveg hvað var í gangi. En hann sýndi mér athygli og það var akkúrat það sem ég þurfti á þessum tíma.“
Anna fullyrðir að maðurinn sé siðblindur í ljósi þess sem hún nú hefur kynnt sér um siðblindu. Hún segir að hún hafi verið sérstaklega móttækileg fyrir ástarjátningum mannsins á þessum tíma. Hún hafði verið áreitt kynferðislega sem barn og átt í tveimur ofbeldissamböndum áður en hún hitti manninn.
„Ég var búin að vera að kljást við ýmislegt, þar á meðal áfallastreitu og þunglyndi. Ég var búin að ganga í gegnum erfiða hluti og var sífellt í leit að viðurkenningu. Ég fékk enga athygli frá mínum jafnöldrum og var dálítið utangarðs. Síðan kom hann og jós yfir mig gullhömrum. Þá gafst ég bara upp og gaf mig honum á vald.“
Maðurinn bað Önnu eftir einungis nokkurra mánaða samband og það á skyndibitastaðnum Quiznos. Anna þjáðist af kvíða og leyfði neikvæðniröddunum ekki að stjórna svarinu við bónorðinu.
„Ég var með svo mikinn kvíða að ef ég hefði alltaf hlustað á neikvæðniraddirnar hefði ég aldrei gert neitt. Ég hugsaði að þetta væri örugglega ekki góð hugmynd, en að sama skapi að þetta hlyti bara að vera bull í mér,“ segir hún. Þegar hún lítur til baka núna sér hún að bónorðið var vel útpælt.
„Hann var að skrifa teiknimyndasögur á þessum tíma og ég var að teikna þær. Hann langaði að fara aftur til Bandaríkjanna og setjast þar að með mér, en sagði það vera erfitt fyrir mig að flytja nema við myndum gifta okkur. Hann setti þetta þannig upp að við gætum bæði unnið við það sem við elskuðum ef við giftumst, ekki að hann væri svo spenntur að kvænast mér. Þetta var bara eitthvað sem „meikaði sens“,“ segir Anna. Fyrst um sinn fannst henni vera borin virðing fyrir sér en síðan breyttist það. „Þetta byrjaði hægt og rólega að vinda upp á sig. Hann var alltaf á leiðinni að finna sér vinnu, en síðan gerðist ekkert því hann var bara að ljúga að mér. Fyrsta skrefið var að venja mig við lygarnar,“ segir hún.
Þau ákváðu að safna pening áður en þau flyttu vestur um haf, en þar sem maðurinn var atvinnulaus þurfti Anna að finna sér vinnu sem gæfi vel í aðra höndina.
„Einn daginn sagði hann að ég gæti pottþétt verið nektardansari. Tilhugsunin fyrir mig, manneskjuna sem hafði aldrei fengið athygli, var góð. Þannig að ég byrjaði að vinna á Goldfinger, en flosnaði upp úr því frekar hratt því mér fór að líða mjög illa í vinnunni,“ segir Anna. Ári eftir að hún kynntist manninum voru þau gift og síðan lá leiðin til Bandaríkjanna, eða í september árið 2007. Þau höfðu náð að safna dágóðri upphæð fyrir ferðina og fengu að búa frítt í húsi sem frændi mannsins átti á Flórída. Enn gekk atvinnuleit mannsins illa og þótt hann hafi fundið sér láglaunastarf var það ekki nóg til að halda þeim uppi þegar þau byrjuðu að ganga á spariféð. Því fór Anna aftur að dansa á nektarstöðum og kunni ágætlega við það. Vorið 2008 flutti parið til Washington og Anna hélt áfram að vinna sem nektardansmær. Síðan kom bankahrunið og allt í einu hætti fólk að venja komur sínar á nektardansstaði og eyða formúu í dans. Það reyndist Önnu erfitt.
„Það fór að ganga verr og verr í klúbbnum af því að fólk var blankt. Mér gekk illa og varð þunglynd. Þetta var bæði stressandi og erfitt. Ég stakk upp á því að ég myndi fá mér aukavinnu á bensínstöð svo við hefðum fastar tekjur en hann bannaði mér það. Ég átti að vera dansari. Hann var löngu hættur í vinnunni fyrir bankahrunið svo hann gæti keyrt mig á dansklúbbana og ég komst ekki neitt nema hann keyrði mig. Staðurinn sem ég dansaði á var í skuggalegu hverfi og hann gat til dæmis ekki alltaf sótt mig út af skotbardögum í götunni. Hann stakk því upp á að hann væri alltaf með peninginn sem ég þénaði, þar sem hverfið væri svo hættulegt. Það endaði því þannig að hann sá um peninga og ég átti ekki neitt.“
Anna var búin að ýta á þáverandi eiginmann sinn reglulega um að fá sér vinnu og loks datt honum í hug að þau myndu byrja framleiðslu á ís og selja á útimörkuðum, og í verslanir. Stuttu eftir að framleiðsla hófst, vorið 2010, varð Anna ólétt að fyrra barni þeirra, stúlku. Meðgangan var erfið og ekki bætti úr skák að Anna þurfti að vinna langa vinnudaga svo fjölskyldan næði endum saman. Á lokadögum meðgöngunnar kom í ljós að Anna var með meðgöngueitrun og var send á sjúkrahús með hraði til að fæða barnið. Fæðingin stóð yfir í fimm daga og segir Anna að þáverandi eiginmaður hennar hafi lítið verið á staðnum. Þegar heim var komið var stúlkubarnið afar órólegt, öskraði allar nætur og mjólkurframleiðsla Önnu var af skornum skammti. Anna átti að vera rúmliggjandi og jafna sig eftir erfiða fæðingu, en barnsfaðir hennar skikkaði hana í vinnuna.
„Eftir tvær vikur trompaðist hann og sagði að ég gæti ekki bara setið heima og gert ekki neitt. Hann reif mig í vinnuna, ég með stelpuna fasta við mig í burðarpoka. Við tókum þrjátíu klukkutíma vinnutörn og ég gat varla talað í endann. Í kjölfarið byrjaði ég að vinna á fullu, oftast tuttugu tíma vinnudaga og átti auk þess að hugsa um húsið, barnið og stóran part af rekstrarlegri hlið fyrirtækisins. Eina sem hann gerði var að blanda ísinn og setja í vélina,“ segir Anna, en á þessum tímapunkti var andlega ofbeldið orðið mikið. „Ég svaf þegar mér var leyft það. Ég sat þegar mér var leyft það. Ég átti engan pening og hann stakk reglulega af án þess að skilja eftir pening fyrir mig og stelpuna. Þetta var svo mikill heilaþvottur og mér leið eins og ég ætti ekki rétt á að biðja um hluti. Ég hafði engin réttindi. Ég átti bara að gera það sem mér var sagt. Ef ég dirfðist að kvarta færðist harka í leikinn.“
Anna varð aftur ólétt árið 2012, þá að dreng. Hún sótti það fast að fara í þungunarrof því fjölskyldan hefði ekki efni á öðru barni en barnsfaðir hennar leyfði henni það ekki. Anna vann alla meðgönguna og var komin til starfa tveimur dögum eftir að drengurinn fæddist, þá með bæði börnin. Haustið 2013 réðu þau starfsmann sem opnaði augu Önnu.
„Hann kom fram við mig eins og manneskju. Ég áttaði mig á að ég væri komin ofan í holu – að ég þyrfti að komast í burtu. Ég ákvað að það væri best að fá smá fjarlægð og fara í stutt frí til Íslands. Foreldrar mínir hjálpuðu mér að kaupa farið og þegar ég lenti á Íslandi brotnaði ég niður. Ég var komin með áfallastreitu vegna þessa alls og þegar ég var búin að vera á Íslandi í mánuð var ég sannfærð um að ég gæti ekki haldið svona áfram lengur. Ég vildi ekki fara til baka,“ segir Anna. Barnsfaðir hennar tók fréttunum ekki vel og dró hana fyrir dóm um hvort hún ætti að snúa aftur til Bandaríkjanna með börnin, með vísan í Haag-samninginn. Anna hafði betur í héraðsdómi um hvort börnin hefðu verið tekin með ólögmætum hætti en tapaði í Hæstarétti. Það var fyrst í þessari baráttu sem Anna heyrði að barnsfaðir hennar hefði verið dæmdur fyrir vörslu á barnaklámi áður en þau kynntust. Þrátt fyrir að hann væri með þann dóm á bakinu var Önnu gert að snúa aftur til Bandaríkjanna með börnin. Anna mátti ekki vinna þegar hún kom aftur til Bandaríkjanna þar sem græna kortið hennar var útrunnið. Hún þurfti því að treysta á fjárframlög ættingja og vina.
Forræðisdeilan fór loks fyrir dóm í desember árið 2015. Anna var á þeim tímapunkti orðin mjög hrædd við barnsföður sinn – hrædd um að hann gerði henni eitthvað. Það jók þær áhyggjur að hún hafði komist í samband við konur sem hann hafði verið með áður en þau Anna hittust, sem báru honum ljóta söguna. Ein konan sagði að hann hefði gengið svo í skrokk á henni að hún var næstum því dáin. Þessar konur báru vitni í málinu í Bandaríkjunum en það virtist litlu máli skipta. Einnig var barnaklámsdómurinn ekki sendur frá Íslandi til Bandaríkjanna og því var hann ekki tekinn inn í dæmið. Réttarhöldin tóku þrjá daga. Anna fékk forsjá yfir börnunum og faðirinn heimsóknarrétt. Anna yrði meira með börnin og fengi að fara með þau aftur til Íslands svo lengi sem hún ynni í því að fá græna kortið aftur.
Anna hélt að þar með væri málinu lokið. Hún búin að fá skilnað og börnin með ákveðna umgengni við föður sinn í Bandaríkjunum en með lögheimili á Íslandi. Svo var nú aldeilis ekki. Hún fylgdi börnunum sínum út í heimsókn til Bandaríkjanna sumarið 2016. Þegar hún sneri aftur til Íslands fékk hún óhugnanlegar fréttir frá lögfræðingi sínum. Eftir að Anna hafði yfirgefið Bandaríkin hafði barnsfaðir hennar ráðið fjórar manneskjur í staðinn fyrir hana í fyrirtækinu. Lögfræðingurinn færði henni þær fréttir að þessar manneskjur hefðu haft samband við lögreglu því barnsfaðirinn væri að leggja á ráðin um hvernig hann ætti að koma Önnu fyrir kattarnef – hvort hann ætti að eitra fyrir henni eða skjóta hana. Maðurinn var handtekinn í kjölfarið og kærður. Svo fór að hann var dæmdur í þriggja mánaða stofufangelsi og skikkaður á ýmis námskeið. Þá fékk Anna einnig fimm ára nálgunarbann á hann. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir dóm á Íslandi um vörslu á barnaklámi þurfa börn þeirra Önnu að heimsækja föður sinn í fimm vikur yfir sumarið og einnig á veturna.
„Í þessum forræðisdómi er ég vondi kallinn,“ segir Anna. „Ég er að halda krökkunum í burtu frá honum og bera út róg um hann. Það virðist vera sama hvert ég fer eða sný mér þá er alltaf verið að halda utan um og vernda rétt gerandans til þess að beita ofbeldi. Um leið og maður reynir að verja sig stangast það á við lögin,“ segir Anna og bætir við að henni finnist réttarkerfi í Bandaríkjunum mun verra en á Íslandi. „Það er mikið feðraveldi. Ef feður segjast vilja fá forræði eru þeir líklegri til að fá það því það er hlustað á karlmenn. Ég get talið mig heppna því ég fékk forræðið samt sem áður. Á Íslandi er talað um að börn njóti vafans. Það er ekkert svoleiðis í Bandaríkjunum. Í gegnum þetta mál er ekki hugsað um hver sé réttur barnanna heldur hver réttur pabbans er.“
Anna og barnsfaðir hennar eiga eftir að festa niður umgengnisreglur varðandi börnin og er það næsta skref. Hún útilokar ekki að fara fram á fullt forræði án umgengni við föðurinn, í ljósi þeirra hegðunar sem hann hefur sýnt og verið dæmdur fyrir. Anna segist halda í þá reglu að tala ekki illa um föðurinn í návist barnanna, en heyrir hvernig hann talar við börnin á Skype. Þá gangi það mikið út á að tala niðrandi um hana sem móður. Anna ber sig vel þrátt fyrir allt og segist aldrei hafa liðið betur á ævinni en einmitt núna – í örygginu á Íslandi.
„Annaðhvort syndir maður eða drukknar. Þetta er ógeðslega erfitt, en hitt er miklu verra. Þetta hefur vissulega dregið dilk á eftir sér. Ég er með áfallastreitu og fékk kulnun í fyrra þannig að ég hef ekkert geta unnið síðan í október. Þetta er alls ekki auðvelt, en ef ég gefst upp þá vinnur hann. Ég á krakka sem treysta á mig og ég geri hvað sem er fyrir þau,“ segir hún. En hvernig lítur framtíðin út?
„Áfallastreita er þannig að hún brenglar tímaskynið. Ég veit að ég á framtíð, en ég á mjög erfitt með að ímynda mér hana. Síðan rennur þetta nálgunarbann út eftir tvö ár. Hvað gerist þá? Er eitthvað sem stoppar hann í að drepa mig þá? Það er viss möguleiki að ég verði myrt þegar ég fer út með krakkana í heimsókn. Ég er með kerfi í gangi til að passa að ég sé ekki ein. Þetta verður normið. Ég er ekki hætt að vera hrædd en ég bý mér til ýmis plön til að vinna eftir. Þetta hefur áhrif á allt mitt líf.“