Hvað olli því að kostnaður við íbúðir sem FEB lét byggja í Árskógum fór 400 milljónir fram úr áætlun og kaupendur þurftu að greiða hærra en áður ásett verð? Þessu svarar talsmaður FEB, Sigríður Snæbjörnsdóttir, í grein í Fréttablaðinu í dag. Þar segir:
„Eftir mikla vinnu bæði stjórnar FEB og aðkeyptra sérfræðinga, kom í ljós að hallinn orsakaðist fyrst og fremst af vantöldum fjármagnskostnaði og lágu þau mistök hjá byggingarnefnd félagsins. Þessi vanreiknaði fjármagnskostnaður fór því miður fram hjá öllum þeim eftirlitsaðilum sem að málinu komu.“
Sigríður segir að þetta hafi verið mikið áfall fyrir kaupendur íbúðanna sem og þá sem sitja í stjórn FEB. Segir hún félagið leggja mikla vinnu í að greina hvað fór úrskeiðis og koma í veg fyrir að slík mistök endurtaki sig í framtíðnni.
Sigríður bendir á að FEB starfi án hagnaðarsjónarmiða og hafi því ekki í neina sjóði að sækja. Ef ekki takist að selja íbúðirnar á kostnaðarverði blasi við gjaldþrot félagins. Enn fremur segir:
„Ákveðið var að freista þess að fá kaupendur til þess að taka þennan halla hlutfallslega á sig þannig að heildarverð allra íbúða næði upp í kostnaðarverð sem kom að sjálfsögðu illa við fólk eftir að hafa gert ráð fyrir lægra verði og er auðvelt að skilja vonbrigðin.
Eftir samningaviðræður við framkvæmda- og fjármögnunaraðila tókst að ná samkomulagi um að lækka hallann úr 400 milljónum króna niður í 250 milljónir króna og var verð íbúða þá aftur lækkað sem því nam, eða um tæp 40% frá fyrri hækkun.
Nú er því verð íbúðanna komið 5% niður fyrir kostnaðarverð og um 17-20% niður fyrir markaðsvirði sambærilegra íbúða á frjálsum markaði.“
Sigríður segir að flestir kaupendur hafi samþykkt nýtt verð íbúðanna og margir séu fluttir inn. Sigríður segir í lok greinar sinnar:
„Það er von okkar í stjórn FEB að íbúar Árskóga 1 og 3 muni, þrátt fyrir þessa leiðu uppákomu, njóta þessara góðu íbúða um ókomin ár.“