Konu sem fékk flogakast á veitingastaðnum Kínahofið á Nýbýlavegi hefur verið meinað að koma á staðinn. Eigendur segja að hún geti fælt frá viðskiptavini. Umrædd kona heitir Unnur Hrefna Jóhannsdóttir og segir hún frá þessu í pistli á Facebook. Telur hún viðhorf Kínahofsins lýsa fáfræði og fordómum. Athygli vekur einnig í frásögn Unnar að starfsfólk Kínahofsins lét hana í fyrstu ekki vita að hún væri ekki æskilegur gestur á staðnum heldur beitti ýmsum tylliástæðum til að halda henni frá Kínahofinu. Frásögnin er eftirfarandi:
Einn af þeim veitingastöðum sem hafa verið í mestu uppáhaldi hjá mér á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár, er Kínahofið, Nýbýlavegi 20 í Kópavogi. Bæði er maturinn góður, verðið sanngjarnt og umhverfið aðlandi og snyrtilegt. Ég hef því vanið komur mínar reglulega þangað í mörg ár. Ég er flogaveik og ég fæ um 1-3 flog á dag. Þrátt fyrir margvíslegan stuðning, verð ég oft að treysta á guð og lukkuna og náungakærleik samborgara minna nema að ég ætli að loka sjálfa mig inni á heimili mínu. Ég hef aldrei orðið vör við annað en hjálpsemi og samkennd í aðstæðum þar sem ég fæ flog. Nýlega átti ég eina af mínum notalegu stundum á Kínahofinu en ekki vildi betur til en að ég fékk flog og brást starfsfólk og gestir sem þar voru við og hringdu á sjúkrabíl sem fór með mig á bráðamóttökuna þar sem ég jafnaði mig fljótt.
Nokkrum dögum seinna lagði ég leið mína á Kínahofið. Þegar ég hins vegar kem inn kemur á móti mér starfsmaður sem baðar út höndunum og vísar mér á dyr með þeim orðum að þau eigi von á stórum hópi. Ég malda í móinn, nokkur borð voru ekki uppdekkuð, klukkan var hálfsex og ég yrði búin að borða klukkan sjö en allt kom fyrir ekki. Út skyldi ég. Nokkrum dögum seinna hringdi ég til öryggis og var sagt að það væri opið allan daginn en þegar ég kom á staðinn um fjögur leytið hafði kokkurinn skroppið frá og enginn vissi hvenær von væri á honum aftur. Um klukkutíma síðar hringi ég og spyr hvort kokkurinn sé kominn en var þá sagt, svo það sé dregið saman, að mín væri ekki óskað framar sem viðskiptavini á Kínahofinu. Ég fór og ræddi við starfsmenn og var þá útskýrt fyrir mér að ég væri ekki æskilegur viðskiptavinur lengur því svona uppákomur gætu fælt frá viðskiptavinina og kosta eigendur peninga. Ég átti ekki orð. En til að bíta höfuðið af skömminni var mér sagt að ég mætti koma klukkan þrjú á daginn en ekki klukkan fimm og ekki klukkan sjö. Flogaveikum er sem sagt meinað að borða á Kínahofinu. Sorglegt dæmi um fáfræði og fordóma.
Í samtali við DV sagði Unnur að Sigurjón Unnar Sveinsson, lögmaður hjá Öryrkjabandalaginu, sé með málið í sínum höndum. Spurning er hvort athæfi Kínahofsins brjóti í bága við lög og stjórnarskrá. Ekki náðist í Sigurjón við vinnslu fréttarinnar þar sem hann er í fríi í Bandaríkjunum en DV hyggst hafa samband við hann í næstu viku og fylgja málinu eftir. Í 65. grein stjórnarskrárinnar segir til að mynda:
„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“
Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir um mismunun á grundvelli fötlunar:
„Merkir aðgreiningu, útilokun eða takmörkun af hvaða tagi sem er vegna fötlunar sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að torvelda eða koma í veg fyrir að fatlað fólk fái viðurkennd, notið eða nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi á sviði stjórn-, efnahags-, félags- og menningarmála, sem borgarar eða á öðrum sviðum. Fyrrnefnd mismunun tekur til mismununar í hvaða mynd sem er, m.a. að fötluðu fólki sé neitað um viðeigandi aðlögun.
Útilokun á sér stað þegar manneskju með fötlun er meinað um aðgang að ákveðnu rými eða um þátttöku í ákveðnum athöfnum vegna fötlunar sinnar. Dæmi um þetta er þegar börnum með fötlun er meinaður aðgangur að hinu almenna skólakerfi og þau aðskilin frá ófötluðum börnum.“