Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að Heilbrigðiseftirlitið telji að í kjölfar framkvæmdanna standist húsnæði og búnaður skólans allar kröfur um öryggi. Austur- og miðálma skólans voru tilbúnar í upphafi skólaársins en Vesturálman verður ekki tilbúin fyrr en um áramótin. Með því að færa til innan skólans verður hægt að leysa húsnæðismál hans og ekki þarf að kenna utan hans eins og gert var í vor.
Fulltrúar skólans, borgarinnar og Verkís funduðu með foreldrum í síðustu viku og segir Fréttablaðið að mikil reiði hafi verið á fundinum. Mörgum spurningum foreldra var ekki hægt að svara þrátt fyrir að tekið væri fram í fundarboði að spurningum yrði svarað. Þegar fundurinn fór fram var ekki búið að ljúka öllum þeim framkvæmdum sem þurfti til að ráða niðurlögum myglunnar, til dæmis var ekki búið að þrífa stóla sem innhéldu svamp.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, sendi foreldrum bréf í gær þar sem hann segist hafa fundað með fulltrúum Heilbrigðiseftirlitsins í kjölfar fundarins og hafi þeir fullvissað hann um að húsnæði skólans og búnaður standist allar öryggiskröfur.