Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata, er í formlegu bataferli við afleiðingum kynferðisofbeldis. Halldór greinir frá þessu í pistli á Facebook-síðu sinni. Segir Halldór að ferlið hafi dregið fram mikinn andlegan sársauka en hann hafi ekki átt neitt val um að takast á við þetta af einurð.
Halldór sækir viðtalstíma hjá Stígamótum auk hópmeðferðar og reglulegrar hugleiðslu. Í hugleiðslunni tekst hann meðal annars á við sjálfshatur.
Pistillinn er eftirfarandi:
„Ég er í formlegu bataferli frá afleiðingum kynferðisofbeldis, fannst ég ekki hafa val um annað en að fara að taka þetta eins föstum tökum og mér er mögulegt. Þetta felur í sér að sækja viðtalstíma hjá Stígamótum og hópmeðferð þegar ég kemst í hana. Þetta hefur dregið fram mikinn sársauka og rússíbana tilfinninga en það er gott að geta deilt því að inn á milli rofar til.
Í kvöld tók ég hugleiðslu dagsins (hálftími á hverjum degi er mín rútína). Vanalega er markmiðið að leyfa engri tiltekinni hugsun að grípa mig heldur einbeita mér bara að andardrættinum – en stundum þegar ég finn eitthvað sterkt og mikilvægt fara í gang þá leyfi ég því að gerast. Núna fór ég frekar djúpt inn í tilfinninguna sjálfshatur, hvað hún hefur verið undirliggjandi og þrálát og skemmandi. Hugleiðslan gaf mér rými til að skoða hana, velta því fyrir mér hvað þessi tilfinning er eiginlega, hvað setningin „Ég hata sjálfan mig“ þýðir. Skoðandi hana utan frá komst ég að raun um að þessi setning er þversagnakennd – það er enginn einn hluti af mér sem hatar annan hluta, ekkert ‘ég’ sem hatar og annað sem er hatað.
Tilfinningin er ekki hluti af mér, hún er hatrið sem var hellt yfir mig og ég hef borið með mér af því það var yfirþyrmandi. Að mörgu leyti hef ég unnið úr því en ég hef ekki verið tilbúinn til að horfast svona lóðbeint í augu við það áður. Það er eitt að átta sig á þessu vitrænt og annað að finna það alveg beint, bæði nákvæmlega hvernig tilfinningin er og hvaða áhrif hún hefur haft á mig en líka hvernig ég get sleppt henni. Hugleiðslan hjálpar virkilega til við að þjappa erfiðum tilfinningum í demanta, þó það útheimti stundum mikla þolinmæði.“