Ragnar Erling Hermannsson hefur stofnað sameiningaraflið Að Rótunum sem hefur það að markmiði að bjóða upp á nýtt tímabil í sögu Íslands. „Við ætlum okkur að bjóða fram sameiningarafl til Alþingis þar sem valdinu verður komið til fólksins,“ segir Ragnar í fréttatilkynningu.
Hreyfingin hefur meðal annars að markmiði að koma á nýrri stjórnarskrá. Samstöðufundurinn verður haldinn á Austurvelli næstkomandi föstudag milli kl. 18 og 20. Í fréttatilkynningunni segir annars:
Að Rótunum er nýtt sameiningarafl (áður stjórnmálaafl) sem hefur það eitt markmið að bjóða fram nýtt tímabil í sögu Íslands. Við ætlum okkur að bjóða fram sameiningarafl til Alþingis þar sem valdinu verður komið til fólksins.
Í fyrsta sinn í sögu lýðveldis mun fólkið í landinu móta stefnuskrá ( ekki flokkur ) aflsins, ´´ kosningaloforð ´´ og mun almenningur fá aðgang að kosningakerfi þar sem það fær að taka beinan þátt í vali á þeim fulltrúum sem það treystir til að meðhöndla viðkvæmustu hagsmuni þess, og fjarlægja þá þaðan ef óánægja ríkir.
Það er tvennt sem við munum ekki víkja frá :
1) Við munum ekki vinna með núverandi kerfi þar sem það var hannað á aðeins einn hátt – með græðgi og völd í huga og munum því reisa nýtt kerfi frá grunni ( skóla, heilbrigðis, trygginga osfrv. ) með beinni aðkomu almennings.
2) Koma nýrri stjórnarskrá Íslands á, sem fólkið hefur þegar lýst yfirgnæfandi vilja til að fá í gagnið. Þar er að finna réttlæti eins og náttúruauðlindir eigi að renna óskiptar í kerfið svo það virki á þann hátt að gagnast öllum.