fbpx
Föstudagur 08.ágúst 2025
Fréttir

Maðurinn sem Páll segir vera föður sinn ræðir við DV – „Ég læt ekki einhvern ókunnugan mann heimta úr mér lífsýni“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 6. ágúst 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður sem neitar að láta af hendi lífsýni til að afsanna að hann sé faðir Páls Andrésar Lárussonar segir einfalda stærðfræði leiða í ljós að hann geti ekki verið faðir Páls. Hann hafi verið við nám í Danmörku þegar Páll var getinn. Maðurinn veitti DV viðtal í dag undir nafnleynd. Hann segir útilokað að hann geti verið faðir Páls og skýrir ástæður sína fyrir því að neita samvinnu í málinu.

Áhugaverð grein birtist í Mannlífi fyrir helgi þar sem Páll Andrés Lárusson, 51 árs flugvirki, steig fram og lýsti baráttu sinni fyrir því að fá staðfestingu á uppruna sínum. Páll segist lengi hafa talið að maðurinn sem hann er kenndur við, Lárus, væri ekki líffræðilegur faðir hans. Fyrir um áratug fékk hann síðan Lárus til að gefa lífsýni og DNA-próf útilokaði að Lárus væri faðir hans.

Páll segist hafa gengið á móður sína eftir upplýsingum, en hún er núna látin. Móðir hans játaði fyrir honum að hafa átt í nánum kynnum við annan mann á því tímabili sem hann var getinn. Þann mann telur Páll vera föður sinn og hefur beðið hann um að láta í té lífsýni svo hægt sé að skera úr um faðernið með DNA-prófi. Þessu neitar maðurinn. Páll stefndi honum fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og krafðist lífsýnis. Krafan var gerð á grundvelli 15 gr. Barnalaga þar sem segir:

„Dómari getur, samkvæmt kröfu, ákveðið með úrskurði að blóðrannsókn verði gerð á aðilum máls og barninu og enn fremur aðrar sérfræðilegar kannanir, þar á meðal mannerfðafræðilegar rannsóknir. Eru þeir sem í hlut eiga skyldir til að hlíta blóðtöku, svo og annarri rannsókn í þágu sérfræðilegra kannana. Dómari getur með sama hætti ákveðið með úrskurði að blóðrannsókn og mannerfðafræðileg rannsókn skuli fara fram á foreldrum og eftir atvikum systkinum aðilanna, svo og á öðrum börnum þeirra. Úrskurð samkvæmt þessari málsgrein má kæra til Hæstaréttar.“

Um þetta segir síðan í Stjórnarskrá lýðveldisins, 71. gr:

„[Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.  Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.]“

Hittust á barnum á Hótel Loftleiðum

Maðurinn sem spjótin standa á hér er 76 ára gamall byggingarfræðingur. DV hitti hann að máli á heimili hans í dag. Á árunum 1963 til 1968 stundaði maðurinn nám í tækniskóla í Danmörku. Hann segir: „Um páskana 1967 útskrifaðist ég sem iðnfræðingur, en það var bara áfangi á leiðinni og mér fannst það ekki svo merkileg gráða þannig að í stað þess að vera við athöfnina og taka á móti prófskírteininu ákvað ég að skreppa til Íslands um páskana. Þá hitti ég þessa konu og ég viðurkenndi það fúslega fyrir dómi. Þarna var vinsæll bar og bak við hann var stórt herbergi þar sem menn sátu inni og drukku en fóru á barinn til að ná sér í drykk. Þarna inni sat þessi kona. Ég býð henni fram á bar í drykk sem hún þáði. Þetta var hugguleg kona, vel vaxin og alls ekki ófríð. Ég spurði hana hvort það mætti bjóða henni upp á herbergi og upp í rúm. Hún hélt það nú!“

Konan sem hér um ræði er móðir Páls. Vandamálið er það að Páll var ekki getinn á þessum tíma heldur um haustið. „Ég beiti einfaldri stærðfræði í þessu máli. Ég reikna níu mánuði frá þessum kynnum og ber saman við fæðingardag hans. Það gengur ekki upp.“

Maðurinn telur forsendur úrskurðar héraðsdóms, um að hann eigi að láta í té lífsýni, vera snargalnar. „Dómarinn kemst að þeirri niðurstöðu að þar sem ég hafi átt í kynnum við þessa konu um páskana þá séu líkur til að ég hafi hitt hana líka um haustið. Þetta kalla ég svona „ef og sko og kannski“ úrskurð. En ég hitti þessa konu bara alls ekki um haustið. Þá var ég í Danmörku að taka fjórða árið í tækniskólanum þaðan sem ég útskrifaðist sem byggingarfræðingur. Ég lagði fram gögn fyrir dómi, þar á meðal einkunnir út skólanum, sem sýna að ég var í Danmörku en ekki á Íslandi þegar drengurinn kom undir.“

Maðurinn segist aldrei hafa hitt móður Páls aftur eftir nóttina ljúfu á Hótel Loftleiðum um páskana. „Við vorum ekkert í sambandi. Ég hafði ekki einu sinni símanúmerið hennar.“

Segir Pál hafa verið ágengan við sig og börnin sín

Maðurinn segir að Páll hafi gefið sig á tal við hann þrisvar á Dönsku kránni í Ingólfsstræti og á Ölstofu Kormákar og Skjaldar á Vegamótastíg. „Í fyrsta skiptið spurði hann hvort hann mætti bjóða mér upp á bjór. Ég þáði það en var hissa því ég hafði aldrei séð þennan mann áður. Ég spurði hann hverju ég ætti þetta boð að þakka og þá hellir hann þessu bara öllu yfir mig á staðnum.“

Maðurinn segir að honum hefði þótt eðlilegra að Páll byði honum í kaffi og segðist þurfa að ræða við hann viðkvæmt mál, í stað þess að demba þessu yfir hann á barnum.

Páll reyndi síðan nokkrum sinnum að nálgast manninn sem vildi ekki ræða þetta frekar við hann. „Hann hringdi síðan í mig aftur og aftur en ég hafði ekkert meira við hann að tala og lagði á þegar hann hringdi síðast. Hann lýsir því með tilþrifum í viðtalinu í Mannlífi að ég hafi skellt á hann. Hann hafði síðan samband við börnin mín tvö sem eftir lifa, en ég missti son minn í bílslsysi er hann var 12 ára, hann var fæddur 1977. Hann lýsir því fjálglega í viðtalinu hvað dóttir mín hafi verið vingjarnleg við hann en það er nú bara þannig að hún er alin upp í kurteisi. Hann segir hins vegar ekki frá því sem dóttir mín sagði við hann. Þegar hann staðhæfði við hana að ég væri faðir hans sagði hún einfaldlega: Sannaðu það!“

Er að hugsa um að una niðurstöðu Landsréttar

En hvers vegna ekki bara að afhenda lífsýni og fá málið úr heiminum?

„Ég læt ekki einhvern ókunnugan mann heimta úr mér lífsýni. Það er bara hans vandamál að hann hafi bitið það í sig að ég sé faðir hans. Nei, ég gef ekki nokkrum manni lífsýni úr mér.“

Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu gerir maðurinn sér hins vegar grein fyrir því að hann verður á endanum að una niðurstöðu dómstóla.  Málið fer fyrir Landsrétt næst en verði niðurstaðan manninum í óhag getur hann vísað henni til Hæstaréttar. Málum sem snerta barnalög getur Hæstiréttur ekki vísað frá heldur verður að taka fyrir. Maðurinn er þó að bræða með sér að una ef til vill niðurstöðu Landsréttar þó að hún verði honum óhagstæð. „Þarna eru þó þrír dómarar sem komast að niðurstöðu en ekki einn dómari eins og í héraðsdómi, sem kvað upp þennan „ef og sko og kannski“ úrskurð um að ég gæti hafa hitt konuna aftur af því ég hitti hana einu sinni.“

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Ragnar segir fólk flykkjast í Reynisfjöru: „Þetta hefur alltaf verið svona þegar verður slys“

Ragnar segir fólk flykkjast í Reynisfjöru: „Þetta hefur alltaf verið svona þegar verður slys“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Segja það ganga kraftaverki næst að hann hafi fundist á lífi

Segja það ganga kraftaverki næst að hann hafi fundist á lífi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristín neitaði að gerast njósnari fyrir Þjóðverja og mátti þola fangavist fyrir – „Þeir buðu mér gull og græna skóga“

Kristín neitaði að gerast njósnari fyrir Þjóðverja og mátti þola fangavist fyrir – „Þeir buðu mér gull og græna skóga“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Slagsmál á ströndinni eftir að rússneskt lag var spilað – Sjáðu myndbandið

Slagsmál á ströndinni eftir að rússneskt lag var spilað – Sjáðu myndbandið