Grunur leikur á að umtalsvert fé hafi verið fengið af Ábyrgðarsjóði launa með sviksamlegum hætti. Upphaflega var greint frá málinu á árinu 2016 í Fréttatímanum sem þá var undir ritstjórn Þóru Tómasdóttur og Gunnars Smára Egilssonar. Enn hefur ekki verið gefin út ákæra í málinu sem heimildir DV herma að sé enn til rannsóknar hjá ákærusviði Héraðssaksóknara.
Fréttatíminn greindi frá því í ágúst 2016, í frétt sem bar fyrirsögnina „Eggert Skúli víða sakaður um svik“, að launakröfur frá tveimur fyrirtækjum tengdum Eggerti Skúla Jóhannessyni, framkvæmdastjóra, hefðu borist í Ábyrgðarsjóð launa. Hlutverk Ábyrgðarsjóðs launa er að bera ábyrgð á launum starfsmanna fyrirtækja sem fara í þrot. Starfsmenn gera kröfur í þrotabú vinnuveitanda síns og geta þá fengið launin sín greidd úr ábyrgðarsjóð.
Meintir starfsmenn fyrirtækja tengdum Eggerti Skúla fóru fram á háar greiðslur úr Ábyrgðarsjóði og áttu sumir hverjir að hafa starfað launalaust fyrir fyrirtækin í ríflega hálft ár launalaust. Heimildir DV herma að málið varði þó nokkur þrotabú sem virðist tengjast sömu aðilum og að launakröfurnar hafi jafnvel komið frá meintum starfsmönnum sem aldrei hafi unnið fyrir þessi fyrirtæki og kannist jafnvel sjálfir ekki við að hafa lagt fram kröfurnar.
Blaðamaður hafði samband við embætti Héraðssaksóknara en var greint frá því að ekki væri hægt að veita svör fyrir fyrirspurnum sökum þagnarskyldu, en samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV hefur málið dregist mikið á langinn sökum þess að illa hefur gengið að ná í einn sakborning og ekki vitað með vissu hvar hann heldur sig.
Heimildarmaður DV, sem ekki vill láta nafn síns getið, segist í samtali við blaðamann telja Eggert siðblindan og telur ámælisvert hvað rannsókn málsins hefur dregist á langinn: „Þetta er náttúrulega sameiginlegur sjóður landsmanna. Núna þurfti virkilega á þessum sjóð að halda og þá er nú allt í lagi að það séu inni einhverjir aurar í þessum sjóð að það séu ekki menn eins og Eggert sem eru búnir að tæma þetta.“
Ítarlega verður fjallað um málið í helgarblaði DV