Ivane Broladze og Marika Chuckhua, hjón frá Georgíu, berjast nú fyrir því að fá dvalarleyfi á Íslandi svo þau geti heimsótt leiði sonar síns. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þau sóttu upphafleg um alþjóðlega vernd hérlendis í júní árið 2017, en þá var Marika ólétt af fyrsta barni þeirra. Við fósturskimun kom í ljós að barnið var haldið alvarlegum fósturgalla og fæddi Marika son sinn andvana eftir tuttugu vikna meðgöngu. Sonur þeirra var í kjölfarið lagður til hinstu hvíldar í Gufuneskirkjugarði.
Þeim var synjað um hælis- og dvalarleyfi í febrúar 2018 og kærunefnd útlendingamála staðfesti í kjölfarið synjunina og hjónunum var vísað af landi brott. Þau sneru aftur í nóvember og segjast ekki geta afborið að vera fjarri gröf sonar síns.
„Við verðum að geta heimsótt leiði sonar okkar, það er eðlilegt, þetta er sonur okkar,“ segir Ivane.
Marika varð barnshafandi að nýju og var tekin ákvörðun um að bíða með brottvísun hjónanna þar til eftir að barnið kæmi í heiminn, þar sem um áhættumeðgöngu væri að ræða. Sonur þeirra, Tomas, fæddist í janúar á þessu ári. Nú hefur Útlendingastofnun ákveðið að vísa þeim úr landi að nýju og meina þeim að snúa aftur til landsins í tvö ár. Fengu þau frest til 2. ágúst til að yfirgefa landið, en urðu hjónin ekki við því.
Hjónin hafa ráðið sér lögmann og hyggjast kæra ákvörðunina. Synir þeirra báðir eru fæddir hér á landi og annar þeirra hvílir í íslenskum kirkjugarði. Því sé tengin þeirra við landið mikil og hyggjast þau sækja rétt á grundvelli þess að samkvæmt útlendingalögum er bannað að vísa útlending frá Íslandi sem er hér fæddur og hafi búið hér óslitið frá fæðingu, en slíkt á við um yngri son þeirra, Tomas.
„Við tengjum sterkt við Ísland, við erum ekki hér ólöglega og ekki heldur synir okkar,“ segir Ivane.