Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út á fjórða tímanum í dag vegna manns sem hafði slasast á fæti á Fimmvörðuhálsi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.
„Nærstaddir heilbrigðisstarfsmenn eru komnir að manninum og hlúa að honum. Á meðan heldur björgunarsveitarfólk akandi upp á hálsinn með frekari búnað til að undirbúa þann slasaða fyrir flutning, verður hann fluttur annað hvort með bíl eða með þyrlu. Þoka er á slysstað og því óvíst hvor leiðin verður farin.“
Björgunarsveitin var einnig kölluð út í dag vegna konu sem hafði komið sér í sjálfheldu í Námafjalli norðan við Mývatn.
„Þegar björgunarsveitarmenn komu á svæðið fengu þeir upplýsingar um að aðrir ferðamenn höfðu aðstoðað konuna við að komast niður. Stuttu seinna náðu þeir tali af konunni neðar í hlíðinni, hún var þá orðin róleg og hélt ferðalagi sínu áfram.“
Lögreglan óskaði eftir aðstoð björgunarsveitar við umferðastjórnun í Strákagögnum þar sem hafði myndast mikill umferðarhnútur.
„Um klukkan hálf þrjú óskaði lögreglan á norðurlandi eftir aðstoð björgunarsveita við umferðastjórnun í Strákagöngum. Þegar björgunarsveitarfólk mætti að göngunum var allt stopp vegna mikillar umferðar. Nú um klukkutíma síðar er flækjan að leysast að sögn björgunarsveitarmanna á staðnum.“