Maður er höfuðkúpubrotinn eftir árás í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Liggur hann sem stendur á spítala. Annar maður í árásinni hlaut tannbrot.
Þrír menn hafa verið handteknir vegna málsins en var sleppt af lokinni skýrslutöku. Þolendur voru fluttir til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Þetta kemur fram í frétt mbl.is
Lögreglufulltrúi í Vestmannaeyjum, Tryggvi Kr. Ólafsson, sagði í samtali við mbl.is að árásin hafi átt sér stað á svonefndu VIP-tjaldsvæði Þjóðhátíðar um klukkan fimm á sunnudagsmorgun. Lögregla rannsakar nú málið og hefur þegar rætt við öll vitni sem vitað er um. Ef vitni voru að árásinni sem lögregla hefur ekki náð tali af þá hvetur Tryggvi þau til að setja sig í samband við lögregluna í Vestmannaeyjum.